Raðmorðingi tekinn af lífi

Gary Ray Bowles.
Gary Ray Bowles. AFP

Raðmorðingi var tekinn af lífi í Flórída í nótt en hann játaði að hafa myrt sex samkynhneigða menn í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna árið 1994. Hann var aftur á móti aðeins dæmdur fyrir þrjú morð.

Gary Ray Bowles, sem var 57 ára gamall, var tekinn af lífi með banvænni sprautu eftir að hæstiréttur hafnaði beiðni verjenda hans um að aftökunni yrði frestað.

Bowles fékk viðurnefnið I-95 morðinginn á sínum tíma þar sem flest fórnarlamba hans fundust nálægt hraðbrautinni meðfram sjávarsíðu Bandaríkjanna.

Á sínum tíma kom fram við rannsókn málsins að Bowles, sem var frá Vestur-Virginíu, hafi flúið að heiman sem barn vegna heimilisofbeldis. Hann framfleytti sér á vændi fyrir samkynhneigða karlmenn í nokkur ár áður en hann fór að fremja morðin.

Eftir að hafa verið í tvígang dæmdur í fangelsi fyrir stórþjófnað, rán, árás og nauðgun, flutti hann til Daytona Beach í Flórída árið 1993.

Á þessum tíma hélt hann áfram að starfa við vændi og var á sama tíma í sambúð með unnustu sinni en hún yfirgaf hann þegar hún komst að því við hvað hann starfaði. Hann sagði við yfirheyrslur að hann hafi alltaf sakað samkynhneigða menn um að bera ábyrgð á sambandsslitunum. Eins hafi hann reiðst mjög þegar hann komst að því að unnusta hans fór í þungunarrof að honum forspurðum, segir í frétt BBC.

Bowles var handtekinn í Jacksonville eftir að hafa verið eftirlýstur um tíma en þar bjó hann undir fölsku flaggi. Hann var dæmdur til dauða fyrir morðið á  Walter Hinton, 47 ára, en fékk lífstíðardóma fyrir morðin á John Hardy Roberts, 59 ára og Albert Alcie Morris, 37 ára.

Lögmenn hans héldu því fram þegar þeir reyndu að fá dauðarefsingunni áfrýjað að Bowles væri svo greindarskertur að ekki mætti taka hann af lífi.

Bowles varð fangi númer 99 sem er tekinn af lífi í Flórída síðan árið 1976 þegar dauðarefsingar voru teknar upp að nýju. Hann er þrettándi fanginn sem er tekinn af lífi í Bandaríkjunum í ár. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert