Trump skipar fyrirtækjum að fara frá Kína

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Xi Jinping Kínaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Xi Jinping Kínaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagðist í dag „hér með skipa“ bandarískum fyrirtækjum að yfirgefa Kína. Lét Trump þessi orð falla eftir að kín­versk stjórn­völd til­kynntu að þau muni svara efna­hagsaðgerðum Banda­ríkj­anna og hækka tolla á banda­rísk­ar vör­ur um allt að 10% eða því sem nem­ur 75 millj­örðum banda­ríkja­dala, jafn­v­irði 9.337 millj­arða ís­lenskra króna.

BBC segir Hvíta húsið þó ekki enn hafa tilgreint hvaða vald forsetinn hafi til að skipa einkafyrirtækjum að yfirgefa land.

Þá tilkynnti Trump um fyrirhugaða 5% hækkun á innflutningstollum á kínverskum vörum og olli þessi nýjasti gjörningur í viðskiptastríði þjóðanna miklum óróa á alþjóða fjármálamörkuðum.

Þann fyrsta ág­úst til­kynnti Don­ald Trump, for­seti Banda­ríkj­anna, að þarlend stjórn­völd myndu leggja á 10% inn­flutn­ing­stoll á vör­ur frá Kína, sem mun nema 300 millj­arða banda­ríkja­dala á ári. Fyr­ir er 25% toll­ur á vör­um frá Kína og taka nýju toll­ar Banda­ríkj­anna gildi í tvennu lagi, fyrsta sept­em­ber og 15. des­em­ber.

Dow Jones vísitalan lækkaði  í dag um 620 punkta, eða 2,4% og lækkun varð einnig á bresku FTSE 100 vísitölunni og þýsku DAX vísitölunni.

„Í anda þess að ná sanngjörnum viðskiptum þá verðum við að jafna út þetta mjög svo ósanngjarna viðskiptasamband,“ sagði Trump á Twitter.

mbl.is