Ekki fallist á sjálfsvörn

AFP

Hvítur maður, sem skaut og drap óvopnaðan svartan mann þegar þeim lenti saman vegna bílastæðis í Flórída, hefur verið dæmdur sekur um manndráp. Fyrir rúmu ári síðan taldi lögreglan að hún gæti hvorki handtekið manninn né ákært vegna laga sem eiga að styðja við rétt fólks til sjálfsvarnar.

Flórída er eitt 27 ríkja Banda­ríkj­anna sem hafa lög sem nefnd eru á ensku Stand Your Ground Law og mætti nefna „Standa á sínu-lög“. 

Sam­kvæmt lög­un­um er fólki heim­ilt að beita ýtr­ustu ráðstöf­un­um til að verja ör­yggi sitt á stöðum þar sem það hef­ur rétt á að vera. Und­ir það fell­ur mann­dráp.

Michael Drejka skaut Markeis McGlockton eftir að unnusta þess síðarnefnda lagði í stæði fyrir fatlaða. Hann á nú yfir höfði sér allt að 30 ára fangelsi en refsingin verður kveðin upp í október.

Faðir McGloctons, Michael McGlockton, segir að málið hafi tekið á fjölskylduna en rúmt ár er liðið frá manndrápinu. Lögmaður Drejka, John Trevena, segir að skjólstæðingur hans muni væntanlega áfrýja niðurstöðunni enda sé hún afar sérstök að hans mati.  

Samkvæmt BBC vakti málið mikla athygli í júlí í fyrra og kom til mótmæla víða í Flórída vegna ákvörðunar lögreglu.

Drejka var ósáttur við unnustu McGlockton, Brittany Jacobs, en hún hafði lagt í bílastæði fyrir fatlaða. Með henni í bílnum voru tvö af börnum hennar. Þegar rifrildið stóð sem hæst kom McGlockton hlaupandi að og ýtti við Drejka þannig að hann féll í jörðina. Drejka, sem var með byssuleyfi, þreif upp skammbyssu og skaut McGlockton.

Drejka sagði að um sjálfsvörn hafi verið að ræða en það er niðurstaða dómsins sem féll í gær að svo hafi ekki verið og hann sekur um manndráp.

mbl.is