Segja hinseginviðburð ógna lýðheilsu

Lögreglunni í Istanbul í Tyrklandi er iðulega beitt gegn viðburðum …
Lögreglunni í Istanbul í Tyrklandi er iðulega beitt gegn viðburðum hinseginfólks. AFP

Yfirvöld í borginni Istanbul í Tyrklandi, hafa ákveðið að banna ólympíuleika hinseginfólks (e. Queer Olympix). Bannið er sagt vera til þess gert að „koma í veg fyrir hugsanleg lögbrot og tryggja lýðheilsu, lög og reglu auk siðferði almennings.“

Um 130 þátttakendur voru skráðir til leiks á leikunum sem áttu að fara fram þessa helgi og átti meðal annars að keppa í knattspyrnu, strandblaki og langstökki.

Þegar skipuleggjendur ætluðu hefjast handa við að stilla upp fyrir ólympíuleika hinseginfólks í Kadikoy hverfinu í morgun var lögreglan mætt á staðinn. „Okkur var sagt að við værum ekki með leyfi til þess að halda viðburðinn,“ hefur AFP eftir Elif Kaya, yfirmann sjálfboðaliða.

Skipuleggjendur sögðu frá því á Instagram að viðburðurinn hafi verið stöðvaður af hverfisstjórn Kadikoy sem „varúðarráðstöfun til þess að sporna við hugsanlegum ögrunum sem geta birst vegna félagslegrar viðkvæmni.“

Tyrkland er álitið meðal frjálslyndari ríkja gagnvart hinseginfólki meðal múslímskra ríkja, en Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, og ríkisstjórn hans hafa hlotið mikla gagnrýni fyrir að þrengja að réttindum hinseginfólks í landinu.

Talsverður fjöldi hinseginviðburða hafa verið stöðvaðir í landinu seinustu ár, þar á meðal gleðigangan (e. pride march) í Istanbul sem hefur verið bönnuð frá 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert