„Ég held að hann vilji hitta mig“

Donald Trump Bandaríkjaforseti ætlar að bjóða Vladimír Pútín Rússlandsforseta á …
Donald Trump Bandaríkjaforseti ætlar að bjóða Vladimír Pútín Rússlandsforseta á næsta fund G7-ríkjanna, sem fram fer í Bandaríkjunum á næsta ári. Rúss­um var vísað úr hópn­um árið 2014. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist vera reiðubúinn að hitta Hassan Rouhani, forseta Írans, á næstu vikum til að ræða samskipti ríkjanna með hliðsjón af kjarnorkuáætlun Írans. 

Málefni Írans voru á meðal fundarefna G7-ríkjanna sem funduðu stíft í Biarritz í Frakklandi um helgina. Javad Zarif , ut­an­rík­is­ráðherra Írans, kom óvænt til Biarritz í gær. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, átti milligöngu um komu ráðherrans en Macron hefur beitt sér fyrir því að draga úr vax­andi spennu milli Írans og Banda­ríkj­anna.

Macron segir að með fundahöldunum um helgina hafi skapast vettvangur fyrir fund forsetanna. Trump játt því og tók undir orð Macron um að forsetarnir gætu hugsanlega rætt saman á næstu vikum. 

„Ég held að hann vilji hitta mig. Ég held að Íran vilji greiða úr málunum,“ sagði Trump á blaðamannafundi við fundarlok G7-ríkjanna í Biarritz í dag. 

Emm­anu­el Macron, for­seti Frakk­lands, bauð Javid Zarif, utanríkisráðherra Írans, á …
Emm­anu­el Macron, for­seti Frakk­lands, bauð Javid Zarif, utanríkisráðherra Írans, á fund ríkj­anna sjö í þeim til­gangi að draga úr vax­andi spennu milli Írans og Banda­ríkj­anna. AFP

Rouhani greindi frá því fyrr í dag að hann hyggst ekki hika við að hefja viðræður sem gætu leitt til hagsældar fyrir land og þjóð. 

Samskipti Bandaríkjanna og Íran hafa verið eldfim frá því að Bandaríkjastjórn dró ríkið úr samn­ingi um kjarn­orku­áætlun Írans sem undirritaður var 2015. Trump hefur innleitt nýjar refsiaðgerðir gegn Íran sem Macron hefur eindregið hvatt til að dregið verði úr. 

Trump vill bjóða Pútín á næsta fund

Næsti formlegi fundur leiðtoga G7-ríkjanna fer fram í Bandaríkjunum á næsta ári. Hóp­ur­inn var áður þekkt­ur und­ir nafn­inu G8, en Rúss­um var vísað úr hópn­um árið 2014 vegna af­skipta af deil­um inn­an Úkraínu og inn­limun Krímskaga.

Trump fullyrti hins vegar í dag að hann myndi „svo sannarlega“ bjóða Vladimír Pútín Rússlandsforseta að sækja fund leiðtoganna í Bandaríkjunum en hann var ekki tilbúin að fullyrða hvort Pútín myndi þekkjast boðið. „Hann er stoltur maður,“ sagði Trump um Pútín.

mbl.is