Fundu geislavirka ísótópa eftir sprengingu

Nyonoska her­stöðin í Arkang­elsk héraðinu í Rússlandi. Geislavirku efnin strontín, ...
Nyonoska her­stöðin í Arkang­elsk héraðinu í Rússlandi. Geislavirku efnin strontín, barín og lanþan mældust í prófunum sem voru gerðar eftir sprenginguna. AFP

Rússneska veðurstofan greindi í dag frá því að geislavirkir ísótópar hefðu greinst í prófunum eftir sprengingu sem varð í herstöð í nágrenni borgarinnar Severodvinsk fyrr í mánuðinum. Að sögn Reuters er um að ræða efnin strontín, barín og  lanþan.

Aukin geislavirkni mældist í Severodvinsk eftir sprenginguna, sem varð þann 8. ágúst. Hefur Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagt um að ræða óhapp sem orðið hafi við prófanir á nýju vopnakerfi, sem forsetinn segir lofa góðu.

Ský af óvirku geislavirku gasi myndaðist við sundrun ísótópanna og segir veðurstofan það hafa valdið skammvinnri aukningu í geislavirkni í Severodvinsk.

Efnin sem um ræði séu strontín-91, sem hafi 9,3 klukkustunda helmingunartíma, barín-139 sem hafi 83 mínútna helmingunartíma, barín-140 sem helmingist á 12,8 dögum og svo lanþan sem hafi 40 klukkustunda helmingunartíma.

Rússneska kjarnorkustofnunin hefur greint frá því að fimm starfsmenn stofnunarinnar hafi farist í sprengingunni og þrír til viðbótar hafi slasast. Sprengingin hafi átti sér stað á eldflaugapalli á hafi úti sem hafi nýtt ísótópa sem orkugjafa.

Bandarískir kjarnorkusérfræðingar segja grun um að atvikið hafi átt sér stað við prófanir á kjarnaknúinn eldflaug.

Norska jarðfræðistofnunin NORSAR, segir aðra sprengingu hafa orði tveimur klukkustundum eftir þá sem kostaði vísindamennina lífið og að líklegt megi telja að það sé seinni sprengingin hafi valdið aukningu í geislavirkni. Sú sprenging hafi væntanlega verið frá eldflaug sem knúin hafi verið geislavirku eldsneyti. Fylkisstjóri í Arkangelsk, þar sem sprengingin varð, hafnar því hins vegar alfarið að önnur sprenging hafi orðið.

mbl.is