G7-ríkin senda flugvél til Amazon

G7-ríkin hafa komist að samkomulagi um að aðstoða brasilísk yfirvöld …
G7-ríkin hafa komist að samkomulagi um að aðstoða brasilísk yfirvöld í baráttunni gegn skógareldum í Amazon. Fjárhagsaðstoðin, um 2,8 milljarðar króna, verður að mestu leyti nýtt til að senda sérútbúna flugvél sem aðstoðar við slökkvistarfið. AFP

Leiðtogar G7-ríkjanna hafa komist að samkomulagi um að reiða fram 20 milljónir evra, eða sem nemur um 2,8 milljörðum króna, í baráttunni gegn skógareldunum í Amazon. 

Fjármagnið verður að mestu leyti notað til að senda sérútbúna flugvél sem aðstoðar við slökkvistarfið, að því er AFP-fréttastofan hefur eftir heimildarmanni hjá skrifstofu Frakklandsforseta.  

Fundi G7-ríkjanna, sem leiðtogar Bretlands, Kanada, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Japans og Bandaríkjanna sitja, lýkur í Biar­ritz í Frakklandi í dag. Skógareldarnir í regnskógum Amazon hafa verið fyrirferðarmiklir á samkomu leiðtoganna um helgina og hefur Emmanuel Macron Frakklandsforseti farið þar fremstur í flokki. Hann gagnrýndi til að mynda Jair Bolsonaro, forseta Brasilíu, en hann hefur verið sakaður um að hafa hvatt til skógeyðingar í þágu landbúnaðar. 

Leiðtogar G7-ríkjanna komust einnig að samkomulagi um að standa að endurskógrækt á svæðum sem hafa orðið eldunum að bráð og verður það kynnt frekar á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í næsta mánuði.

Frá fundi leiðtoga G7-ríkjanna sem fram fór í Biar­ritz í …
Frá fundi leiðtoga G7-ríkjanna sem fram fór í Biar­ritz í Frakklandi um helgina og lýkur formlega í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert