Noti kjarnorkusprengju gegn fellibyl

Fellibylurinn Mikael er hann nálgaðist austurströnd Bandaríkjanna í október í …
Fellibylurinn Mikael er hann nálgaðist austurströnd Bandaríkjanna í október í fyrra. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur nokkrum sinnum lagt það til við heimavarnarráðuneytið og embættismenn í þjóðaröryggismálum að þeir kanni hvort hægt sé að nota kjarnorkusprengjur til að koma í veg fyrir að fellibylir komist til Bandaríkjanna.

Fréttavefurinn Axios greinir frá og hefur eftir heimildarmönnum sínum.

Á einum fundi sem var haldinn var vegna fellibyls sagði Trump: „Ég veit. Ég veit. Af hverju notum við ekki kjarnorkusprengju gegn þeim?” sagði hann, að sögn heimildarmanns sem var á staðnum. „Þeir byrja að myndast undan ströndum Afríku. Þegar þeir eru að færast yfir Atlantshafið vörpum við sprengju í miðju fellibylsins og það truflar hann. Af hverju getum við ekki gert það?” bætti heimildarmaðurinn við og umorðaði þar ummæli forsetans.

Spurður hvernig sá sem ræddi við Trump um fellibylinn hafi brugðist við sagði heimildarmaðurinn að hann hefði sagt eitthvað á þennan veg: „Herra, við skoðum málið.”

Trump svaraði með því að spyrja hversu marga fellibyli Bandaríkin gætu ráðið við og ítrekaði tillögu sína um að stjórnvöld gripu inn í áður en þeir kæmust til Bandaríkjanna.

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Forsetinn viðraði sömu hugmynd í öðru samtali við háttsettan embættismann árið 2017. Að sögn heimildarmanns kom það fram í minnisblaði frá fundinum að Trump hefði ekki notað orðið „kjarnorka” heldur hefði hann talað um að sprengja fellibyli.

Hugmyndin um að stöðva fellibyli með kjarnorkusprengjum er ekki ný af nálinni og nær hún í raun aftur til áranna þegar Dwight Eisenhower var forseti Bandaríkjanna á sjötta áratugnum, að því er Axios greinir frá. Þar kemur einnig fram að vísindamenn séu sammála um að aðferðin virki ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert