Verður að vera annar valkostur en Trump

Joe Walsh segist gefa kost á sér til forseta af …
Joe Walsh segist gefa kost á sér til forseta af því að bandaríska þjóðin sé komin með nóg af bræðisköstum Trumps. AFP

Repúblikaninn og útvarpsmaðurinn Joe Walsh hefur gefið kost á sér sem mótframbjóðandi Donald Trump Bandaríkjaforseta í forsetakosningunum á næsta ári. Er Walsh þar með annar repúblikaninn sem gefur kost á sér gegn Trump í forkosningum repúblikana.

Áður hafði Bill Weld, fyrrverandi ríkisstjóri Massachusetts, tilkynnt um framboð sitt.

„Þjóðin er komin með nóg af bræðiköstum þessa manns — hann er krakki,“ sagði Walsh í samtali við ABC-sjónvarpsstöðina.

Reuters segir Walsh þó ólíklegan til að fara með sigur af hólmi, enda hafi enginn Bandaríkjaforseti á okkar tímum tapað í forkosningum um útnefningu eigin flokks. Bæði Jimmy Carter, árið 1980, og George Bush eldri, árið 1992, þurftu þó að takast á við sterka mótframbjóðendur sem reyndist forboði þeirra erfiðleika sem þeir stóðu svo frammi fyrir í forsetakosningum sem báðir töpuðu.

„Ég gef kost á mér af því að hann er óhæfur — það þarf einhver að stíga fram því það þarf að vera annar valkostur,“ sagði Walsh sem er fyrrverandi þingmaður sem náði kjöri í fulltrúadeild Bandaríkjaþings í kjölfar framgangs teboðshreyfingarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert