Brasilía hafnar boði G7 um fjárstuðning

Óvenjumargir gróðureldar loga nú í Brasilíu, flestir þeirra í Amazon.
Óvenjumargir gróðureldar loga nú í Brasilíu, flestir þeirra í Amazon. AFP

Stjórnvöld í Brasilíu hafa hafnað boði G7-ríkjanna um fjárhagsaðstoð til að ráða niðurlögum gróðureldanna í Amazon-regnskógunum.

Emmanuel Macron, sem var gestgjafi fundarins, tilkynnti í gær að 20 milljónum dollara yrði varið verkefnisins, sem brasilísk yfirvöld svo höfnuðu.

BBC segir brasilíska ráðamenn ekki hafa gefið neina skýringu á að hafna fjárgjöfinni, en forseti landsins, Jair Bolsonaro, hefur áður sakað Frakka um að koma fram við Brasilíu eins og nýlenduríki.

Fullyrðir varnarmálaráðherra Brasilíu, Fernando Azevedo e Silva, að eldarnir séu ekki stjórnlausir og að 44.000 hermenn hafi verið sendir á vettvang til að ráða niðurlögum þeirra og til að berjast gegn umhverfisglæpum í Amazon-skógunum.

Onyx Lorenzoni, starfsmannastjóri Bolsonaro, tjáði sig við Globo-vefsíðuna um fjárgjöfina. „Takk, en kannski þessum fjármunum verði betur varið til að græða upp skóga Evrópu,“ sagði hann og bætti svo við: „Macron getur ekki einu sinn komið í veg fyrir fyrirsjáanlegan eldsvoða í kirkju sem er hluti af menningarminjum heims og svo ætlar hann að fara að kenna okkur eitthvað?“ Vísaði Lorenzoni þar til brunans í Notre Dame-kirkjunni í París í apríl.

Sagði hann því næst Brasilíu geta kennt „hvaða þjóð sem er“ að verja skóga.

Óvenjumargir gróðureldar loga nú í Brasilíu, flestir þeirra í Amazon samkvæmt upplýsingum frá geimrannsóknastofnun landsins. Sagði Macron í síðustu viku eldana vera „alþjóðlegt hættuástand“.

Hafa gagnrýnendur sakað Bolsonaro um að gera ástandið enn verra með orðræðu sem sé fjandsamleg umhverfismálum.

Brasilískur bóndi gengur hér með hundi sínum í gegnum svæði …
Brasilískur bóndi gengur hér með hundi sínum í gegnum svæði sem sem orðið hefur eldinum að bráð. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert