Lögsækir Boeing vegna 737 MAX

Kyrrsettar Boeing 737 MAX farþegaþotur í nágrenni höfuðstöðva Boeing í …
Kyrrsettar Boeing 737 MAX farþegaþotur í nágrenni höfuðstöðva Boeing í Seattle. AFP

Rússneska flugvélaleigufyrirtækið Avia hefur höfðað mál gegn flugvélaframleiðandanum Boeing. Í stefnunnni er þess krafist að pöntun Avia á 35 flugvélum af gerðinni 737 MAX verði rift og að Boeing greiði fleiri hundruð milljónir í skaðabætur. Þetta er fyrsta málsókn á hendur Boeing vegna öryggisvandamála í hugbúnaði vélanna.

Finicial Times greinir frá.

Heldu lykilupplýsingum leyndum

Avia Capital Sercives er dótturfélag Rostec sem er fyrirtækjasamsteypa á vegum rússneska ríkisins. Í stefnunni er því haldið fram að tvö flugslys, í Indónesíu og Eþíópíu þar sem 346 manns fórust, megi rekja til gáleysis í ákvörðunatöku hjá flugvélaframleiðandanum sem varð til þess að 737 MAX-vélarnar voru framleiddar gallaðar auk þess sem Boeing hafi haldið mikilvægum upplýsingum leyndum frá flugmálayfirvöldum í Bandaríkjunum (FAA).

Stefnan var lögð fyrir dóm í Cook-sýslu í Chicago-ríki í Bandaríkjunum í gær. Í henni er því einnig haldið fram að forsvarsmenn Boeing hafi vísvitandi veitt villandi upplýsingar til að ýta undir sölu flugvélanna.

Fer fram á fleiri hundruð milljónir í skaðabætur

Avia pantaði 35 stykki af 737 MAX 8 flugvélum áður en þær voru kyrrsettar um allan heim í mars og krefst þess að þeirri pöntun verði rift. Við pöntunina greiddi fyrirtækið 35 milljónir bandaríkjadala og krefst endurgreiðslu á þeirri fjárhæð auk 75 milljóna í skaðabætur vegna tekjutaps. Þá er krafist refsiskaðabóta sem hleypur á fleiri hundruð milljónum bandaríkjadala.

Lögmaður Avia, Steven Marks, sagði í viðtali við blaðamenn Finincial Times að Boeing hefði boðið leigufélaginu bætur vegna pöntunarinnar en að sú fjárhæð hefði ekki verið nægilega há. Boeing hefur samið við aðra viðskiptavini sína vegna málaferla sem hafa verið höfðuð á sömu forsendum og greiddi hátt í fimm milljónir bandaríkjadala á öðrum ársfjórðungi vegna þeirra samninga.

Fyrsta málsóknin af mörgum

„Ég held að við munum sjá fleiri málsóknir eins og þessa á komandi misserum. Þetta er sú fyrsta af mörgum,“ sagði Steven Marks. Hann er einnig lögmaður þrjátíu fjölskyldna sem misstu fjölskyldumeðlimi í flugslysunum í Indónesíu í október á síðasta ári og í Eþíópíu í mars á þessu ári.

Talsmenn Boeing vildu ekki svara fyrirspurnum fjölmiðla vegna málsóknarinnar.

mbl.is