Í gæsluvarðhald vegna gruns á aðild að morði

Maðurinn sem er í haldi er skráður eigandi bíls sem …
Maðurinn sem er í haldi er skráður eigandi bíls sem fannst í ljósum logum í Lorensberg. Lögreglan telur að morðinginn, sem enn er ófundinn, hafi notað bílinn til að flýja af vettvangi morðsins. AFP

19 ára karlmaður sem handtekinn var af sænsku lögreglunni á mánudag í tengslum við skotárás á konu í miðbæ Malmö hefur verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald. Maðurinn er talinn eiga aðild að morðinu ásamt grófu broti á vopnalögum. Sænska ríkissjónvarpið greinir frá. 

Kon­an sem var á fer­tugs­aldri fékk skot í höfuðið og lést af sár­um sín­um. Hún var úti að ganga ásamt barnsföður sínum og hélt á ungu barni sínu í fanginu þegar hún var skotin. Hvorki barn­inu né föðurn­um varð meint af.

Maðurinn sem er í haldi er skráður eigandi bíls sem fannst í ljósum logum í Lorensberg. Lögreglan telur að morðinginn, sem enn er ófundinn, hafi notað bílinn til að flýja af vettvangi morðsins. Maður­inn var hand­tek­inn á mánudag og yf­ir­heyrður þá um kvöldið og ákvað lög­regla í kjöl­farið að halda hon­um leng­ur. Hann neitar allri aðkomu að málinu og lögmaður hans krefst að honum verði sleppt úr haldi. 

Lögmaðurinn fullyrðir að maðurinn hafi sjálfur gefið sig fram við lögreglu. Þá sé hann með fjarvistasönnun þar sem hann var í dómsal í Helsingborg þegar morðið átti sér stað. Það staðfestir dómstóllinn við sænska ríkissjónvarpið, en maðurinn er einn af tólf sem ákærðir í stórfelldu fíkniefnamáli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert