Leggja bann við eldum næstu 60 daga

Loftmynd af skógareyðingu í Nascentes da Serra do Cachimbo-náttúruvendarsvæðinu í …
Loftmynd af skógareyðingu í Nascentes da Serra do Cachimbo-náttúruvendarsvæðinu í Brasilíu. AFP

Stjórnvöld í Brasilíu hafa lagt bann við því að eldar séu kveiktir til að hreinsa gróður fyrir ræktarland í Amazon-regnskógunum. Bannið gildir næstu 60 daga og var sett til að bregðast við mikilli aukningu gróðurelda í skógunum.

Tilskipunin var undirrituð af Jair Bolsonaro, forseta Brasilíu, sem hefur sætt mikilli gagnrýni heima og erlendis fyrir að gera ekki nógu mikið til að vernda regnskógana.

BBC segir áhrifamikinn brasilískan umhverfisverndarsinna hafa varað við því í gær að ástandið eigi enn eftir að versna.

Fulltrúar frá ríkjum Suður-Ameríku munu funda í næstu viku til að ræða um eldana og hvernig megi ráða niðurlögum þeirra.

BBC segir óljóst hver raunveruleg áhrif bannsins muni verða. Hafa umhverfisverndarsinnar áður vakið athygli á því að mikill meirihluti þeirra elda sem eru kveiktir til að hreinsa land séu þegar ólöglegir og lítið sé lagt upp úr umhverfisvernd.

Yfir 80.000 gróðureldar hafa kviknað í Amazon-skógunum það sem af er ári og er það 77% aukning frá sama tíma fyrir ári.

Hafa umhverfisverndarsinnar sumir hverjir sagt stefnumálum forsetans um að kenna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert