Trump segir Comey að skammast sín

James Comey og Donald Trump hafa átt í orðastríði um …
James Comey og Donald Trump hafa átt í orðastríði um hríð. Niðurstaða dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna að Comey hafi brotið reglur stofnunarinnar með því að halda eftir minnisblöðum og leka þeim til fjölmiðla breytir litlu um það. AFP

Bandaríska dómsmálaráðuneytið gerir athugasemdir við að James Comey, fyrr­ver­andi for­stjóri banda­rísku al­rík­is­lög­regl­unn­ar, FBI, hafi haldið eftir minnisblöðum sem hann skrásetti eftir fundi hans með Donald Trump Bandaríkjaforseta. Með því braut hann reglur stofnunarinnar, sem og þegar hann lak efni minnisblaðanna til fjölmiðla. 

Dómsmálaráðuneytið segir að Comey hafi með hegðun sinni sett hættulegt fordæmi fyrir samstarfsmenn sína hjá alríkislögreglunni. 

Niðurstaða rannsóknar dómsmálaráðuneytisins er samt sem áður sú að Comey hafi ekki lekið trúnaðargögnum. Málinu hefur verið vísað til saksóknara sem mun ákvarða hvort Comey verði sóttur til saka. 

Trump rak Comey úr starfi sínu hjá FBI í maí 2017, sem varð til þess Robert Mu­ell­er var gerður að sér­stök­um sak­sókn­ara FBI á af­skipt­um rúss­neskra ráðamanna af banda­rísku for­seta­kosn­ing­un­um 2016 og tengsl­um þeirra við starfs­menn fram­boðs Trumps. 

Mu­ell­er seg­ir í rann­sókn­ar­skýrslu sinni sem var op­in­beruð í apríl að hann hafi ekki getað ályktað að Trump sé sak­laus af ásök­un­um um að hafa hindrað fram­gang rétt­vís­inn­ar. 

Segir niðurstöðu ráðuneytisins sanna sakleysi sitt

Fregnir þess efnis að Comey hefði haldið eftir minnisblöðum um samskipti sín við Trump bárust í apríl 2018. Þar á meðal voru að minnsti kosti tvö minn­is­blöð sem Comey lét vin sinn og lögmann, Dan Richam hafa og inni­héldu þau upp­lýs­ing­ar sem emb­ætt­is­menn mátu síðar sem leynilegar. Þá á hann að hafa veitt Richam leyfi til að deila efni minnisblaðanna með blaðamanni New York Times. 

Reglurnar sem Comey braut, að mati dómsmálaráðuneytisins, heyra undir að starfsmönnum alríkislögreglunnar er ekki heimilt að taka með sér gögn án heimildar stofnunarinnar. Comey tók að minnsta kosti fjögur minnisblöð sem hann geymdi í öryggisskáp á heimili sínu. Eftir að hann var rekinn lét hann ekki vita að hann væri með minnisblöðin í vörslu sinni. 

Comey tjáir sig um niðurstöðu rannsóknar dómsmálaráðuneytisins og segir hana staðfesta sakleysi sitt. „Ég þarf ekki opinbera afsökunarbeiðni en stutt skilaboð sem segja „fyrirgefðu að við lugum upp á þig“ væri ágætt,“ segir Comey meðal annars á Twitter. 

Fram kemur í fréttatilkynningu frá Hvíta húsinu að Comey sé lygari og það sé löngu staðfest að hann hafi lekið gögnum. Þá segir Trump að Comey ætti að skammast sín.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert