Vilja aðstoða Brasilíu

Frá svæði Menkragnoti-frumbyggja í Altamira, í Para-ríki í Brasilíu.
Frá svæði Menkragnoti-frumbyggja í Altamira, í Para-ríki í Brasilíu. AFP

Bandaríkin eru reiðubúin til þess að aðstoða Brasilíu í baráttunni við skógareldana í Amazon-regnskóginum að sögn aðstoðarmanns forseta Bandaríkjanna, Donald Trump. En aðeins í samstarfi við brasilísku ríkisstjórnina.

Leiðtogar sjö helstu iðnríkja heims hétu því á mánudag að leggja til 20 milljónir Bandaríkjadala í baráttuna við skógareldana í stærsta regnskógi heims. Skógurinn skiptir gríðarlega miklu máli þegar kemur að loftslagsmálum heimsins. Talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, Garrett Marquis, skrifaði á Twitter seint í gærkvöldi að Bandaríkin séu reiðubúin til þess að styðja Brasilíu í baráttunni við eldana í Amazon. Aftur á móti telji Bandaríkjastjórn rétt að gera það í samstarfi við ríkisstjórn Brasilíu. 

Hann segir að bandarísk stjórnvöld hafi ekki verið sammála frumkvæði G7 þar sem ekki var haft samráð við forseta Brasilíu og mun vænlegra til árangurs sé að slíkt samráð sé haft. 

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hefur ekki leynt því að hann var ekki sáttur við þessa ákvörðun G7-ríkjanna. Hann sagði að Brasilía myndi ekki þiggja milljónirnar nema forseti Frakklands, Emmanuel Macron, drægi til baka móðganir í hans garð. En hann breytti síðan um skoðun og sagði að Brasilía myndi þiggja erlenda aðstoð með því skilyrði að brasilísk yfirvöld réðu því hvernig henni væri ráðstafað.

Bolsonaro breytti enn á ný um skoðun í gær þar sem hann sakaði Frakka og Þjóðverja um að reyna að kaupa sjálfstæði Brasilíu og að hann væri í vafa um hvort Brasilía þægi milljónirnar. 

Um 60% Amazon-regnskóganna eru í Brasilíu en skógurinn liggur einnig um fleiri lönd í Suður-Ameríku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert