9 staðir sem Bloomberg mælir með í stað Íslands

Ferðamannaiðnaðurinn á Grænlandi hefur tekið kipp eftir að fréttir bárust ...
Ferðamannaiðnaðurinn á Grænlandi hefur tekið kipp eftir að fréttir bárust af áhuga Donald Trump Bandaríkjaforseta á að kaupa landið. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Er Ísland á listanum hjá þér yfir staði sem þú vilt heimsækja?“ spyr Forbes-fréttaveitan og segir svarið væntanlega vera já. Land ísa og elda sé enda í uppáhaldi hjá ferðalöngum. Full ástæða sé hins vegar nú til að sleppa Íslandi og beina sjónum sínum frekar að níu öðrum áfangastöðum sem ekki séu jafn áberandi.

Fréttaveitan nefnir fjölda ferðamanna hér á landi sem góða ástæðu fyrir því að fara eitthvað annað. „Samkvæmt fréttum eru sex ferðamenn á hvern heimamann á Íslandi og á síðasta ári var landið valið næstversti staður í heimi varðandi of mikinn ferðamannafjölda,“ segir Forbes. Íslenskur stjórnmálamaður hafi til að mynda í fyrra líkt landinu við Disneyland vegna ferðamannafjöldans.

Þá megi einnig geta þess að með gjaldþroti WOW air standi ofuródýrar Íslandsferðir ekki lengur til boða.

Efst á lista Forbes yfir þá viðkomustaði sem ferðamenn eigi frekar að velja er Grænland, sem „allir segi að sé hið nýja Ísland“. Bendir fréttaveitan enn fremur á að fréttir af áhuga Donald Trumps Bandaríkjaforseta á að kaupa eyjuna hafa haft jákvæð áhrif á grænlenska ferðamannaiðnaðinn.

Nýfundnaland ratar einnig á listann og Finnland, sem Forbes segir ódýrara en Ísland og með líflegan hönnunariðnað. Portúgal ratar sömuleiðis á listann og það gera einnig Azoreyjar, Alaska, Noregur, Færeyjar og jafnvel Idaho, en síðastnefndi staðurinn er sagður fela í sér styttra ferðalag fyrir Bandaríkjamenn, en bjóði engu að síður upp á hveri, heitar laugar, fjallgarða og djúp gil.

mbl.is