Dorian orðinn „gífurlega hættulegur“ fellibylur

Gervitunglamyndir sýna hvernig vindhraði Dorian eykst eftir því sem hann …
Gervitunglamyndir sýna hvernig vindhraði Dorian eykst eftir því sem hann færist nær Bandaríkjunum. AFP

Fellibylurinn Dorian er orðinn „gífurlega hættulegur“ þriðja stigs fellibylur að mati bandarísku fellibyljamiðstöðvarinnar, NHC. Talið er að hann muni ná á land í Flórídaríki á sunnudag eða mánudag og verði þá orðinn fjórða stigs fellibylur þar sem vindhraði getur náð 58 m/s.

BBC greinir frá

Veðurfræðingar hafa varað við því að Dorian gæti orðið hættulegasti fellibylur sem gengur yfir Flórídaríki síðan fimmta stigs fellibylurinn Andrew gekk á land árið 1992. Hann varð 65 einstaklingum að bana og eyðilagði um 63.000 heimili.

Ríkisstjóri Flórídaríkis lýsti í fyrradag yfir neyðarástandi í ríkinu vegna komu Dorian og hefur varað við því að hann muni valda margra daga hamförum í ríkinu. Íbúar eru farnir að birgja sig upp af vatni og öðrum nauðsynjavörum og eru margir orðnir mjög smeykir. Búðarhillur eru byrjaðar að tæmast og raðir á bensínstöðvar virðast vera endalausar.

Dorian læðist nú á litlum hraða, um það bil 17 km/klst, í átt að norðausturströnd Bandaríkjanna. Vindhraði fellibylja eykst vanalega þegar þeir færa sig yfir heitara vatn. En það er ekki bara vindhraðinn sem er hættulegur heldur er flóðahætta sem fylgir fellibyljum á þessu svæði mjög mikil.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur varað við því að Dorian „gæti orðið algjört skrímsli“ og hætti við fyrirhugaða heimsókn sína til Póllands vegna komu hans. Sendi hann Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna í sinn stað.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert