Konurnar sem fundu fórnarlömb fyrir Epstein

Lögfræðingurinn Gloria Allred, fyrir miðju, með tveimur fórnarlamba Epsteins. Á …
Lögfræðingurinn Gloria Allred, fyrir miðju, með tveimur fórnarlamba Epsteins. Á annar tugur kvenna lýsti kynnum sínum af auðkýfingnum fyrir rétti í New York á þriðjudag. AFP

Þegar Haley Robson, 16 ára framhaldsskólanemi í Suður-Flórída, var í sundi kom kunningi að máli við hana og spurði hvort hún vildi afla sér aukatekna með því að veita milljarðamæringi í Palm Springs nudd?

Robson svaraði játandi. Þegar auðkýfingurinn og barnaníðingurinn Jeffrey Epstein reyndi svo að káfa á henni þegar hún var að nudda hann, klædd g-streng einum fata, ýtti hún hendi hans frá sér. Hún heimsótti þó setur Epsteins oft eftir það og nú í ábatasömu nýju hlutverki  að finna aðrar stúlkur úr skóla sínum fyrir Epstein.

Eftir að Epstein lést, að því er virðist fyrir eigin hendi, í fangelsi á Manhattan hinn 10. ágúst hefur kastljós lögreglu og saksóknara beinst að fyrrverandi kærustum, starfsmönnum og öðrum tengiliðum auðkýfingsins. Segja saksóknarar Epstein hafa reitt sig á aðstoð þeirra til að mæta „óseðjandi löngun hans í stúlkur“, að því er New York Times hefur eftir heimildamönnum sem þekkja til rannsóknarinnar. Er kvennahópurinn sagður hafa tælt stúlkur inn í heim Epsteins, auk þess sem þær hafi haldið utan um skiplag funda hans með þeim.

Þurfa að svara til saka fyrir að hjálpa Epstein

Robson sem er 33 ára í dag er ein þessara kvenna. Hún greindi fyrst frá aðild sinni í vitnisburði vegna einkamáls sem var höfðað árið 2009. Kvaðst hún þá ekki hafa þurft að sannfæra stúlkurnar. Hún hefði spurt og þær hefðu samþykkt.

Dómari felldi í gær niður málið gegn Epstein vegna dauða hans, en í vitnisburði sem tugir kvenna gáfu fyrir réttinum á þriðjudag hvöttu þær til þess að konurnar í innri hring Epsteins yrðu rannsakaðar.

„Jeffrey er ekki lengur hér, en konurnar sem hjálpuðu honum eru það,“ sagði Teresa Helm sem var fengin inn í heim Epsteins fyrir 17 árum. „Þær þurfa að svara til saka fyrir að hjálpa honum, fyrir að hjálpa sjálfum sér og fyrir að hjálpa hver annarri að halda úti þessu risavaxna kerfislíki“.

Jeffrey Epstein reiddi sig á aðstoðarmenn til að mæta „óseðjanlegri …
Jeffrey Epstein reiddi sig á aðstoðarmenn til að mæta „óseðjanlegri löngun hans í stúlkur“. AFP

Geoffrey S. Berman saksóknari á Manhattan, sem lagði fram ákæruna gegn Epstein, sagði rannsókn á mansalsákærunni ekki lokið og að yfirvöld ætluðu sér að standa með þessum „hugrökku ungu konum“ sem Epstein hefði misnotað.

Reiddi sig á net undirmanna sem þjálfuðu stúlkurnar

Ghislaine Maxwell, dóttir fjölmiðlajöfursins Roberts Maxwells, er sú kvennanna sem hvað mest hefur verið í sviðsljósinu til þessa. Hún var unnusta Epsteins um tíma og hefur áður verið ákærð fyrir að hafa yfirumsjón með að ná í stúlkur fyrir hann. Hún hefur neitað ákærunum.

Einkamál hefur einnig verið höfðað þar sem Epstein er ákærður fyrir að reiða sig á skipulagt net undirmanna sem þjálfuðu stúlkur í að veita honum kynferðislega ánægju, skrifstofustarfsfólk sem sá um að bóka bíla og ferðir og fólk sem sá um ráðningar og tryggði að alltaf væri nóg af unglingsstúlkum til reiðu.

Enginn tengiliða Epsteins hefur enn verið ákærður eða nafngreindur sem slíkur. New York Times segir alríkisyfirvöld þó ekki hafa útilokað að mansalskærur verði lagðar fram gegn þeim.

Fjórar kvennanna áttu svo umfangsmikla aðild að starfi Epsteins að þær voru nefndar mögulegir samverkamenn í réttarhöldum yfir honum á Flórída 2008. Var sú ákvörðun að veita þeim friðhelgi gegn ákærunum gegn því að bera vitni harðlega gagnrýnd.

Konurnar fjórar, Sarah Kellen, Lesley Groff, Adriana Ross og Nadia Marcinkova, kunna þó að verða ákærðar nú, þar sem friðhelgin þá tekur ekki til rannsóknarinnar nú.

Húsbóndinn Maxwell

Veldisskipan ríkti í mansalshring Epsteins, sem tróndi sjálfur á toppnum ásamt Maxwell.

„Hún skipulagði þetta allt fyrir Jeffrey,“ sagði Sarah Ransome, sem höfðaði mál gegn Maxwell og öðrum tengiliðum hans árið 2017.

Maxwell var unnusta Epsteins um langa hríð, sá um utanumhald með heimilum hans og kynnti hann fyrir fjölda stjórnmálamanna, hefðarfólki og frægum einstaklingum sem í kjölfarið urðu fastagestir í hans innsta hring.

„Þau voru eins og viðskiptafélagar,“ sagði Janusz Banasiak, sem sá um fasteignir Epsteins, í vitnisburði sínum. Bryti Epsteins, Alfredo Rodriguez, lýsti Maxwell í vitnisburði sínum sem „húsbóndanum“.

Sjálf hefur hún harðneitað því að hafa átt þátt í mansalinu, en fjöldi vitnisburða fórnarlamba Epsteins bendir hins vegar til annars.

„Líf mitt snerist um að geðjast þessum mönnum og að halda Ghislaine og Jeffrey ánægðum,“ sagði Virginia Roberts Giuffre sem var 16 ára ráðin af Maxwell sem nuddari. „Líf þeirra snerist eingöngu um kynlíf.“

Veldisskipan ríkti í mansalshring Epstein. Ghislaine Maxwell tróndi þa á …
Veldisskipan ríkti í mansalshring Epstein. Ghislaine Maxwell tróndi þa á toppnum ásamt Epstein sjálfum. AFP

Liðsforinginn Kellen

Sarah Kellen var næst í valdastiganum. Hún var hátt settur starfsmaður Epsteins sem hefur verið nafngreind í fjölda málaferla og á að hafa útbúið lista yfir stúlkur fyrir kynlífsstundir Epsteins á setri hans á Palm Beach.

Í einum málaferlunum var hún nefnd „liðsforinginn“ og sögð hafa verið einskonar aðstoðarmaður Maxwell.  

Er Kellen sögð hafa haldið utan um nöfn og símanúmer allra þeirra stúlkna sem veittu Epstein nudd og sá um að hringja í þær þegar Epstein var í bænum og spurði hvort þær væru til í „að vinna“.

„Hún leit á sig sem yfirmanninn,“ segir Spencer T. Kuvin lögfræðingur sem fór með mál nokkurra fórnarlambanna. „Sarah sá raunverulega um rekstur samtakanna, með því að ná inn stúlkum og koma þeim til og frá heimilinu á Palm Beach.“

„Það voru þær Ghishlaine og Sarah Kellen sem sýndu mér hvernig ég átti að veita Jeffrey unað,“ sagði Ransome.

Aðstoðarmennirnir

Þær Lesley Groff, Adriana Ross og Nadia Marcinkova flokkuðust svo sem aðstoðarmenn. Groff starfaði sem helsti aðstoðarmaður Epsteins um tæplega 20 ára skeið. Hún sá um að svara í síma hans og hélt utan um dagskrá hans, m.a. fundi með virtum vísindamönnum, fjármálamönnum á Wall Street, bandarískum stjórnmálamönnum og erlendu hefðarfólki.

Hún sagði í viðtali við The Times árið 2005 að hún hefði myndað sérstök tengsl við Epstein í gegnum árin og væri farin að geta séð þarfir hans fyrir. „Ég veit hvað hann er að hugsa,“ sagði hún.

Ransome sagði í málshöfðun sinni Groff þó líka hafa séð um ferðalög og bókanir á húsnæði fyrir þann endalausa straum unglingsstúlkna sem sáu Epstein fyrir erótísku nuddi.

Michael Bachner, lögfræðingur Groff, segir hana hins vegar aldrei hafa vitandi vits skipulagt ferðalög fyrir nokkurn undir 18 ára aldri.

Adriana Ross var önnur aðstoðarkvenna Epsteins. Þegar lögreglan á Palm Beach var með Epstein til rannsóknar árið 2005 fjarlægði Ross þrjár tölvur af heimili hans á Flórída. Sagði lögregla í skýrslu sinni á þeim tíma að hún hefði ástæðu til að ætla að tölvurnar hefðu innihaldið myndir af nöktum stúlkum, sem áttu að vera á staðnum.

„Hún birtist dag einn með einhvern mann og sagði mér að þau væru að flytja tölvurnar,“ Banasiak sem sá um fasteignir Epsteins.

Mögulega fórnarlömb sjálfar

Fyrrverandi fyrirsætan og flugmaðurinn Nadia Marcinkova var einnig til skoðunar hjá lögreglunni á Palm Beach árið 2005 eftir að 16 ára stúlka greindi lögreglu frá því að hún hefði verið að nudda Epstein þegar Marcinkova kom nakin inn í herbergið. Epstein sagði stúlkunni þá að hún gæti unnið sér inn aukalega 200 dollara ef hún hefði munnmök við Marcinkovu. Samþykkti stúlkan treglega að gera það og sagði það hafa verið í fyrsta af mörgum slíkum fundum sem hún var þvinguð til að eiga við þau bæði.

Í skýrslu lögreglu er tekið fram að rannsakendur hafi ástæðu til að telja að Marcinkova hafi sjálf verið á barnsaldri er hún komst fyrst í kynni við Epstein.

Erica T. Dubnoand Aaron Mysliwiec, lögfræðingur Marcinkovu, sagði í samtali við New York Times að hún, líkt og önnur fórnarlömb, þyrfti tíma til að melta og átta sig á hvað hún hefði gengið í gegnum, áður en hún væri reiðubúin að tjá sig.

New York Times segir þetta eina af ástæðum þess að erfitt geti verið ákæra suma af samverkamönnum Epsteins. Konur eins og Haley Robson og Marcinkova kunni upphaflega að vera fórnarlömb sjálfar.

Því meira sem þú gerir því meira græðir þú

Robson, sem starfaði um tíma sem fatafella, var ekki í hópi kvennanna fjögurra sem fengu friðhelgi í Flórída 2008. Þáttur hennar í málinu þótti þó nógu stór til að lögregla íhugaði að kæra hana sérstaklega.

Hún hefur lýst þætti sínum í starfsemi Epsteins. Þegar Epstein kom til Flórída fékk hún símtal frá Kellen sem sagði henni hversu marga nuddtíma hann þyrfti að fá í heimsókn sinni. Í sameiningu unnu þær svo að skipulagningunni.

„Ég fann stelpu sem var tilbúin að eyða þeim dögum og stundum,“ sagði Robson. Hún greindi lögfræðingum frá því að hún hefði fengið greidda 200 dollara fyrir hverja framhaldsskólastúlku sem hún mætti með á setur Epsteins. Sú yngsta sem hún kom með var 14 ára og sú elsta 23 ára og fékk hún orð í eyra frá Epstein fyrir þá síðari. Of gömul sagði hann við hana.

Hún segir stúlkurnar hafa vitað að hverju þær gengju. Reglurnar hefðu ekki verið ræddar, en skildar engu að síður.

„Því meira sem þú gerir því meira græðir þú,“ sagði Robson í vitnisburði sínum. „Ef maður var ber að ofan eða vann í g-streng og brjóstahaldara þá græddi maður yfir hundrað dollara.“

Hún kvaðst sjálf líka hafa hugleitt að höfða mál gegn Epstein, en ákveðið að gera það ekki.

„Mér fannst það vera auðvelda leiðin,“ sagði hún. „Svo ákvað ég að þetta væri mitt líf og ég yrði að bera ábyrgð á eigin gjörðum af því að ég bauðst til þessa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert