Beita táragasi og gúmmíkúlum gegn mótmælendum

Mótmælt er í Hong Kong, þrettándu helgina í röð.
Mótmælt er í Hong Kong, þrettándu helgina í röð. AFP

Lögreglan í Hong Kong hefur beitt táragasi, gúmmíkúlum og stærðarinnar vatnsbyssum til að tvístra mótmælendum sem safnast hafa saman í borginni, þrátt fyrir að fyrirhuguðum mótmælum um helgina hafi verið aflýst eftir að lögregla bannaði mótmælin af öryggisástæðum. 

Mótmælt hefur verið í borginni síðustu tólf helgar og áttu mótmælin um helgina að marka það að fimm ár eru liðin frá því að íbúar mótmæltu afskiptum kínverskra yfirvalda af kosningum í sjálfsstjórnarhéraðinu. 

Kveikj­an að mót­mæl­un­um var laga­frum­varp sem heim­ila átti framsal brota­manna til meg­in­lands Kína. Mót­mæl­in hafa síðan þró­ast upp í kröfu um aukið lýðræði.

Íbúar í Hong Kong láta bannið ekki á sig fá og hafa gengið um götur borgarinnar í dag undir slagorðum líkt og „Standið með Hong Kong“ og „berjumst fyrir frelsi“. 

Mótmælin í dag eru sögð skorta leiðtoga. Í gær voru þekktir aðgerðasinnar handteknir, Jos­hua Wong og Agnes Chow, og segja mann­rétt­inda­hóp­ar að þetta sé í sam­ræmi við aðgerðir kín­verskra stjórn­valda – að fjar­lægja þá sem gætu reynst óþægur ljár í þúfu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert