Flórídabúar birgja sig upp fyrir fjórða stigs fellibyl

Fellibylurinn Dorian er orðinn fjórða stigs fellibylur að mati bandarísku fellibyljamiðstöðvarinnar, NHC. Dorian stefnir á Bahamaeyjar í dag og mun að öllum líkindum ná á land á Flórída á mánudag. 

Varað er við vindstyrk Dorian en áætlað er að vindhraði geti náð allt að 60 metrum á sekúndu. Úrhellisrigning getur einnig fylgt fellibylnum með tilheyrandi flóðum. Hubert Minnis, forsætisráðherra Bahamaeyja, varar sömuleiðis við miklum öldugangi sem mun fylgja Dorian. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir á eyjunum og keppast ferðamenn við að yfirgefa Bahama áður en alþjóðaflugvellinum verður lokað. 

Íbúar í Flórída keppast við að undirbúa sig fyrir komu …
Íbúar í Flórída keppast við að undirbúa sig fyrir komu fellibylsins Dorian og er orðið ansi tómlegt um að litast í hillum stórmarkaða. AFP

Neyðarástandi hefur einnig verið lýst yfir í Flórída en íbúar á hættusvæðum hafa enn sem komið er ekki verið beðnir að yfirgefa heimili sín. Íbúar hafa birgt sig upp af mat, drykk og lyfjum og Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, beinir því til fólks að hafa vikubirgðir af helstu nauðsynjum og búa sig undir það versta. 

Veður­fræðing­ar hafa varað við því að Dori­an gæti orðið hættu­leg­asti felli­byl­ur sem geng­ur yfir Flórída­ríki síðan fimmta stigs felli­byl­ur­inn Andrew gekk á land árið 1992. Hann varð 65 ein­stak­ling­um að bana og eyðilagði um 63.000 heim­ili.

Donald Trump Bandaríkjaforseti aflýsti för sinni til Póllands um helgina til að vera til taks þegar fellibylurinn gengur á land. Um 2.500 þjóðvarðliðar hafa verið kallaðir út í Flórída og 1.500 til viðbótar eru í viðbragðsstöðu.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert