Gjaldtaka í ferðaþjónustu í brennidepli

„Bundin er bátleysur maður,“ er færeyskur málsháttur og hér er …
„Bundin er bátleysur maður,“ er færeyskur málsháttur og hér er bátur borinn á þjóðhátíð Færeyja sem haldin er 28. og 29. júlí ár hvert. Lögmaður Færeyja boðaði til kosninga til lögþingsins á Ólafsvökunni og kjördagur er í dag. Ljósmynd/Guðmundur Arndísarson

Alls eru 179 manns í framboði fyrir níu flokka í kosningum til lögþings Færeyja í dag, þar af 121 karlmaður og 58 konur. Málefni á borð við húsnæðismál, umhverfismál og gjaldtöku í ferðaþjónustu voru í brennidepli í kosningabaráttunni en minna bar á umræðu um sjálfstæðismálin sem hafa lengi sett mark sitt á færeysk stjórnmál.

Fjórir stórir með sex til átta sæti

Fjórir stærstu flokkarnir í Færeyjum fengu 27 af alls 33 sætum á lögþinginu í síðustu kosningum fyrir fjórum árum. Jafnaðarflokkurinn varð þá stærstur, fékk átta sæti, og formaður hans, Aksel V. Johannesen, 46 ára lögfræðingur, varð lögmaður, eða forsætisráðherra landstjórnarinnar. Flokkurinn er einnig með annað af tveimur sætum Færeyja á danska þinginu.

Aksel V. Johannesen, 46 ára lögfræðingur, er formaður Jafnaðarflokksins í …
Aksel V. Johannesen, 46 ára lögfræðingur, er formaður Jafnaðarflokksins í Færeyjum.

Þjóðveldisflokkurinn fékk sjö sæti fyrir fjórum árum og gekk til stjórnarsamstarfs við Jafnaðarflokkinn og Framsókn. Formaður hans er Høgni Hoydal, sem er 53 ára og hefur verið sjávarútvegsráðherra frá árinu 2015. Flokkurinn er til vinstri og hlynntur því að Færeyjar fái sjálfstæði frá Danmörku.

Fólkaflokkurinn stefnir einnig að sjálfstæði Færeyja. Hann fékk sex þingsæti í síðustu kosningum. Formaður hans er Jørgen Niclasen, sem er fimmtugur og hefur farið fyrir flokknum frá árinu 2007 þegar hann tók við af Anfinn Kallsberg sem var lögmaður Færeyja á árunum 1998 til 2004. Flokkurinn er systurflokkur Íhaldsflokksins í Danmörku og þeir hafa starfað saman á danska þinginu. Fólkaflokkurinn er til hægri í efnahagsmálum og hefur meðal annars boðað lægri skatta og opinber gjöld.

Sambandsflokkurinn er einnig með sex sæti á lögþinginu. Formaður hans er Bárður á Steig Nielsen, sem er 47 ára fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta. Hann lét af embætti fjármálaráðherra árið 2007 til að stjórna framkvæmdum vegna áforma um að reisa íbúðarhúsnæði í Hoyvík en hætt var við þau vegna fjármálakreppunnar um ári síðar. Hann varð formaður Sambandsflokksins árið 2015 þegar Kaj Leo Johannesen lét af formennsku eftir ósigur í kosningum. Eins og nafn flokksins gefur til kynna er hann hlynntur því að Færeyjar verði áfram í danska ríkissambandinu.

Høgni Hoydal, sjávarútvegsráðherra Færeyja, og formaður Þjóðveldisflokksins.
Høgni Hoydal, sjávarútvegsráðherra Færeyja, og formaður Þjóðveldisflokksins. Ljósmynd/Sendiráð Færeyja

Þrír minni með tvö sæti hver

Þrír aðrir stjórnmálaflokkar fengu tvö þingsæti hver í síðustu kosningum. Framsókn, flokkur sem klauf sig út úr Fólkaflokknum árið 2011, er undir forystu Pouls Michelsens, sem er 75 ára og ráðherra utanríkis- og viðskiptamála í landstjórninni. Michelsen lýsir Framsókn sem frjálslyndum flokki. Hann vill að Færeyingar semji við Dani um nýjan samstarfssamning sem veiti Færeyjum sjálfstæði. Hann vill þó að Færeyjar haldi áfram samstarfi við Danmörku í öryggis- og peningamálum, að Færeyingar haldi dönsku krónunni og verði áfram hluti af dönsku krúnunni.

Miðflokkurinn er undir forystu Jenis af Rana, 66 ára læknis sem hefur átt sæti á þinginu frá 1994. Hann er skilgreindur sem kristilegur miðflokkur og er andvígur hjónaböndum para af sama kyni og ókeypis fóstureyðingum. Írafár varð í Færeyjum þegar Jenis af Rana afþakkaði boð í kvöldverð til heiðurs Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra, þegar hún heimsótti Færeyjar í september 2010 ásamt eiginkonu sinni. Hann sagði heimsóknina vera ögrun þar sem hjónabönd samkynhneigðra væru „ekki í samræmi við heilaga ritningu“.

Sjálvstýri er einnig miðflokkur en frjálslyndur í samfélagsmálum. Hann er hlynntur því að Færeyjar fái sjálfstæði í áföngum. Formaður hans er Jógvan Skorheim, sem er 37 ára og bæjarstjóri Klakksvíkur.

Fellur stjórnin?

Auk þessara sjö flokka taka tveir nýir þátt í kosningunum, Færeyjaflokkurinn og Framtakið, en kannanir benda til þess að þeir fái ekkert þingsæti. Færeyjaflokkurinn hefur boðað aukið frjálsræði í atvinnulífinu og gagnrýnt forgangsröðunina í gangagerð. Framtakið berst fyrir því að kannabis verði lögleyft í lækningaskyni.

Gallup-könnun sem gerð var fyrr í mánuðinum bendir til þess að landstjórnin missi meirihluta sinn og Jafnaðarflokkurinn og Þjóðveldisflokkurinn missi eitt sæti hvor. Fólkaflokkurinn verður stærstur, bætir við sig tveimur sætum og fær átta gangi niðurstöður könnunarinnar eftir.

Vilja sjálfstæði í áföngum

Fyrir kosningarnar til danska þingsins í júní lagði Þjóðveldisflokkurinn áherslu á sjálfstæðismálin með vígorðinu „Ef ekki núna, hvenær?“ og sagði að nú væri rétti tíminn til að lýsa yfir sjálfstæði. Hann missti hins vegar annað sæta Færeyja á danska þinginu til Sambandsflokksins og lagði minni áherslu sjálfstæði í aðdraganda kosninganna til lögþingsins. Flokkarnir sem aðhyllast aðskilnað tala nú frekar um að Færeyingar leggi grunninn að sjálfstæði í áföngum með því að taka við ábyrgð á fleiri málaflokkum og tryggja að þeir verði ekki háðir fjárframlögum frá Danmörku. Þau nema nú um 6% af fjárlögum Færeyja, að sögn landstjórnarinnar.

Fjölgun ferðamanna í Færeyjum á síðustu árum hefur verið á meðal helstu kosningamálanna að þessu sinni. Um 110.000 ferðamenn komu til eyjanna á síðasta ári og þeir voru tvöfalt fleiri en íbúarnir. Um fjórðungur þeirra kom frá Danmörku. Meðal annars hefur verið rætt um upptöku gjalda sem erlendir ferðamenn greiði fyrir aðgang að færeyskri náttúru en ekki Færeyingar.

Íbúum Færeyja hefur einnig fjölgað í um 52.000 úr 48.000 frá árinu 2013 og skortur á íbúðarhúsnæði hefur sett mark sitt á kosningabaráttuna, að sögn blaðamannsins og stjórnmálaskýrandans Inga Samuelsens.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert