Hefnir sín með því að hætta að nota Bic-penna

Bolsonaro mundar Bic-penna fyrr í mánuðinum. Myndin var, merkilegt nokk, …
Bolsonaro mundar Bic-penna fyrr í mánuðinum. Myndin var, merkilegt nokk, ekki tekin í tengslum við yfirlýsinguna. AFP

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hefur gefið út að hann sé hættur að nota penna frá franska fyrirtækinu Bic til að skrifa undir opinber skjöl. Þetta gerir hann til að hefna sín á Frökkum, en forsetinn umdeildi hefur átt í deilum við Emmanuel Macron Frakklandsforseta, sem sakar hann um skeytingarleysi gagnvart bruna Amazon-regnskógarins.

Bolsonaro hafnaði til að mynda neyðarframlagi sem G7-ríkin hugðust veita til slökkvistarfsins og sagði ríkjunum að líta í eigin barm fyrst. Bolsonaro og stuðningsmönnum hans er gefið að sök að hafa frá upphafi vitað af því að til stæði að kveikja í skógum, en með því fæst landrými sem nota má til landbúnaðar og iðnaðar.

Hefur Macron hótað því að leggjast gegn fyrirhuguðum fríverslunarsamningi Evrópusambandsins og Mercosur-ríkjanna fjögurra, sem Brasilía tilheyrir, vegna vanefnda Brasilíumanna á Parísarsamkomulaginu. Fríverslunarsamningurinn hefur verið lengi í bígerð en er nú tilbúinn og bíður staðfestingar ráðherraráðs ESB. 

Í stað Bic-penna sagðist Bolsonaro myndu notast við Compactor-penna frá Brasilíu, en í samtali við AFP-fréttaveituna neitaði hann að svara hvort ummælin væru grín.

mbl.is