Lars Løkke segir af sér

Lars Løkke og Mette Frederiksen er sú síðarnefnda tók við …
Lars Løkke og Mette Frederiksen er sú síðarnefnda tók við af Løkke sem forsætisráðherra í júní. AFP

Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, hefur sagt af sér sem formaður hægriflokksins Venstre. Frá þessu greindi hann fyrir stundu á twittersíðu sinni. Segir hann þar að mikilvægt sé að „halda fast í sjálfsvirðinguna“.

Töluverður styr hefur staðið um stöðu Lars Løkke síðustu vikur eftir að ríkisstjórn hans féll í þingkosningum í júní. Flokkur hans, Venstre, bætti að vísu við sig fylgi en sökum slæmrar útreiðar stuðningsflokksins, Danska þjóðarflokksins, féll meirihlutinn og jafnaðarmenn mynduðu ríkisstjórn. Er staða Løkke því um margt keimlík stöðu Helle Thorning-Schmidt, fyrrverandi formanns Jafnaðarmanna, sem sagði af sér formennsku eftir þingkosningar 2015 þegar bandalag vinstriflokka tapaði meirihluta sínum, þrátt fyrir að Jafnaðarmenn hefðu bætt við sig í fylgi.

Boðað hafði verið til funda í stjórn flokksins í dag og í gær til að ræða ástandið en Løkke hafði sjálfur lagt til að landsfundi flokksins yrði flýtt til að endurnýja mætti umboð og stefnu æðstu manna í flokknum.

Lars Løkke varð tvívegis forsætisráðherra Danmerkur, fyrst frá 2009 til 2011 og aftur á síðasta kjörtímabili, 2015 til 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert