Thunberg mótmælti við höfuðstöðvar SÞ

Sænski aðgerðasinninn Greta Thunberg er stödd í New York þar ...
Sænski aðgerðasinninn Greta Thunberg er stödd í New York þar sem hún lætur til sín taka í loftslagsmálum. AFP

Sænski aðgerðasinninn Greta Thunberg mótmælti aðgerðaleysi stjórnvalda á heimsvísu vegna loftslagsbreytinga ásamt fjölda bandarískra ungmenna við höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York í gær. 

Thunberg kom til New York í vikunni en hún mun ávarpa ráðstefnu­gesti lofts­lags­ráðstefnu Sam­einuðu þjóðanna 23. sept­em­ber. Thunberg ferðaðist með seglskútu yfir hafið þar sem hún flýgur ekki sökum loftmengunar. 

Thunberg hóf að mótmæla fyrir rúmu ári, fyrst um sinn ein, en hún hefur veitt öðrum ungmennum drifkraft sem hafa safnast saman á föstudögum víða um heim og mótmælt aðgerðaleysi stjórnvalda vegna loftslagsbreytinga. Í gær fóru 54. mótmælin fram 

Hundruð bandarískra ungmenna voru samankomin við höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna vegna mótmælanna. „Þegar við vissum að Greta yrði hér gátum við ekki látið mótmælin framhjá okkur fara. Hún veitir okkur innblástur,“ segir Atara Saunders, 17 ára, sem er búsett í Fíladelfíu en kom til New York vegna Thunberg. 

Hundruð bandarískra ungmenna tóku þátt í mótmælum Gretu Thunberg gegn ...
Hundruð bandarískra ungmenna tóku þátt í mótmælum Gretu Thunberg gegn aðgerðarleysi stjórnvalda á heimsvísu vegna loftslagsbreytinga við höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í gær. AFP

Að mótmælunum loknum átti Thunberg fund með forseta allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, Mariu Fernöndu Espinosa. Talsmaður Espinosa segir að á fundinum hafi Thunberg farið fram á að gripið verði til aðgerða.mbl.is

Bloggað um fréttina