100 létust í loftárás á fangelsi

Björgunarsveitarmenn leita í rústum fangelsisins.
Björgunarsveitarmenn leita í rústum fangelsisins. AFP

Yfir 100 manns eru taldir af eftir loftárás herja Sádi-Arabíu og bandamanna á fangelsi í borginni Dhamar í Jemen í dag, að því er alþjóðadeild Rauða krossins segir. Sádi-Arabar segja skotmarkið hafa verið búðir uppreisnarhópsins Houthi sem „[geymi] flygildi og eldflaugar“ en uppreisnarmenn segja sjálfir að húsnæðið hafi einungis hýst fanga.

Í tilkynningu frá Sameinuðu þjóðunum segir að kennsl hafi verið borin á lík 52 fanga en 68 annarra er enn saknað. „Mannfallið mun að öllum líkindum aukast þar sem björgunaraðgerðir standa enn yfir,“ segir í tilkynningunni. Árásir á fanga eru brot á alþjóðalögum, eins og áréttað er í yfirlýsingunni.

Björgunarsveitir Rauða krossins voru fljótar á vettvang og hafa læknateymi þeirra ekki haft undan við að fylla líkpoka. Umrætt fangelsi var byggt undir skóla en hefur þjónað öðrum tilgangi frá því borgarastríð brast út í Jemen árið 2015. 90.000 manns hafa látist í átökunum, þar af um 11.000 almennir borgarar, auk þess sem talið er að 85.000 börn hafi soltið til dauða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert