Forseti Þýskalands bað Pólverja fyrirgefningar

Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, bað Pólverja fyrirgefningar vegna síðari heimsstyrjaldarinnar við minningarathöfn í pólsku borginni Wielun í morgun þar sem fyrstu sprengjurnar í styrjöldinni féllu fyrir 80 árum. 

„Ég lýt höfði fyrir fórnarlömb árásarinnar í Wielun. Ég lýt höfði fyrir pólsk fórnarlömb þýsku harðstjórnarinnar. Og ég bið um fyrirgefningu ykkar,“ sagði Steinmeier á þýsku og pólsku. 

Í dag eru 80 ár liðin síðan seinni heimsstyrjöldin hófst, mannskæðasta styrjöld í sögunni. Talið er að 70 til 85 milljónir hafi farist af völdum stríðsins, sem stóð yfir í um sex ár, frá 1939 til 1945. Um það bil sex milljónir Pólverja létu lífið í stríðinu.    

Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, bað Pólverja fyrirgefningar vegna síðari heimstyrjaldarinnar ...
Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, bað Pólverja fyrirgefningar vegna síðari heimstyrjaldarinnar við minningarathöfn í pólsku borginni Wielun í morgun. AFP

Steinmeier og Andrzej Druda, forseti Póllands, lögðu blómsveig að minnisvarða um heimsstyrjöldina. Síðar í dag munu þeir hitta þá sem lifðu sprengjuárásirnar í Wielun af, á þessum degi fyrir 80 árum. 

Druda sagði árásir nasista í styrjöldinni grimmdarverk og stríðsglæp. „Ég er handviss um að þessi minningarathöfn muni styrkja vinabönd pólsku og þýsku þjóðarinnar,“ sagði hann jafnframt og þakkaði Steinmeier fyrir að vera viðstaddur. „Það voru Þjóðverjar sem frömdu þessa glæpi gegn mannkyni í Póllandi. Sem forseti Þýskalands get ég tjáð þér að við munum aldrei gleyma því,“ sagði Steinmeier. 

Í dag eru 80 ár eru liðin frá því her­ir ...
Í dag eru 80 ár eru liðin frá því her­ir Þýska­lands réðust inn í Pól­land og mark­ar sá at­b­urður upp­haf seinni heims­styrj­ald­ar. AFP

Um 250 þjóðhöfðingjar og ráðherrar eru í Póllandi þar sem tímamótanna er minnst. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er þeirra á meðal og verður hann viðstaddur minningarathöfn í Varsjá í dag ásamt öðrum þjóðarleiðtogum. 

Athöfnin verður fjölmenn og mun Guðna ekki gefast kostur á að hitta flokks­leiðtoga eða funda eins­lega með stjórn­mála­mönn­um, en hann vill þó nýta minn­ing­ar­viðburðinn til að vekja at­hygli á skugga­hliðum öfga og þjóðremb­ings, og samdi af því til­efni yf­ir­lýs­ingu sem gef­in verður út á vef for­seta­embætt­is­ins, for­seti.is, síðar í dag.

Andrzej Druda, forseti Póllands, þakkaði forseta Þýskalands fyrir að vera ...
Andrzej Druda, forseti Póllands, þakkaði forseta Þýskalands fyrir að vera viðstaddur minningarathöfnina. Sex milljónir Pólverja létu lífið í seinni heimstyrjöldinni en í dag eru 80 ár liðin frá upphafi hennar. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina