83 metrar á sekúndu

AFP

Aldrei hefur jafn kraftmikill stormur og Dorian gengið á land á Bahamaeyjum frá því mælingar hófust. Þök húsa hafa rifnað af enda mælist vindhraðinn 83 metrar á sekúndu. 

Dorian er fimmta stigs fellibylur og ekkert sjötta stig er til. Hluti Abaco-eyjanna er kominn undir vatn eftir gríðarleg flóð þar í kjölfar Dorian. Lýst hefur verið yfir neyðarástandi í Flórída, Georgíu og Norður- og Suður-Karólínu en fellibylurinn er væntanlegur þangað á næstunni og hefur íbúum við strönd ríkjanna verið gert að yfirgefa heimili sín. 

Íbúar Bahamaeyja hafa birt myndir og myndskeið á samfélagsmiðlum þar sem sést að Dorian hefur leikið eignir þeirra grátt. Heimili á floti í strandbæjum, bílar eins og hráviði, tré sem hafa rifnað upp frá rótum og lausamunir sem hafa tekið flugið. 

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur beðið Bandaríkjamenn að biðja fyrir íbúum Bahamaeyja. Hann greindi frá því á Twitter og eins á blaðamannafundi að von væri á fellibylnum til Alabama en veðurstofan hefur leiðrétt þann misskilning forsetans. Trump segist ekki vera viss um að hafa nokkurn tíma áður heyrt um fimmta stigs fellibyl en þetta er að minnsta kosti í fimmta skiptið sem hann lýsir yfir undrun sinni á svo öflugum fellibyljum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert