Boris kominn með hvolp í Downingstræti

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands er kominn með hund.
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands er kominn með hund. AFP

15 vikna gamall hvolpur frá dýraathvarfi í Wales hefur nú bæst í fjölskyldu Boris Johnsons, forsætisráðherra Bretlands. Hvolpurinn er Jack Russel terrier-blendingur og hafði verið skilinn eftir á vergangi þar sem hann er með skakka kjálka.

Hvutti hefur fengið nafnið Dilyn og mun búa með Johnson og sambýliskonu hans Carrie Symonds í íbúð yfir Downingstræti 11.

„Forsætisráðherrann hefur alltaf verið ötull stuðningsmaður dýravelferðar,“ hefur BBC eftir talsmanni Johnson. Þau hafi því viljað beina athyglinni að Lucy's Law, samtökum sem berjast gegn hvolpaframleiðslu á svonefndum „puppy farms“.

„Carrie og Boris eru að hjálpa mjög svo viðkvæmum hundi, sem annars hefði líklega verið aflífaður,“ segir sjónvarpsdýralæknirinn Marc Abraham sem hafði aðkomu að því að Dilyn varð fyrir valinu. „Þau eru bæði mikið hundafólk.“

Í Downingstræti 10, sem hefur lengst af verið hinn formlegi forsætisráðherrabústaður, býr kötturinn Larry sem hefur sýnt sig að vera öflugur í músaveiðum. Abraham segir þó ólíklegt að þeir Dilyn muni hittast mikið. Dilyn hafi engu að síður sl. fimm vikur dvalið á fósturheimili með ketti og sé orðinn húsvanur.

Eigandi dýraathvarfsins, Eileen Jones, segir sögu Dilyns sannkallað öskubuskuævintýri. „Það er frábært að Carrie og Boris hafi valið venjulegan, tætingslegan lítinn terrier í staðinn fyrir einhvern tískuhund,“ sagði Jones.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert