Fjórir látnir og tuga saknað eftir eld í báti

Slökkviliðsmaður að störfum við Santa Cruz eyju. Báturinn var í …
Slökkviliðsmaður að störfum við Santa Cruz eyju. Báturinn var í ljósum logum er slökkvilið kom á vettvang. AFP

Fjórir hafa fundist látnir og 29 til viðbótar er enn saknað eftir að eldur kom upp í bát úti fyrir Santa Cruz-eyju í Kaliforníu í morgun, að því er BBC hefur eftir bandarísku strandgæslunni. Eldurinn kviknaði snemma í morgun að staðartíma í köfunarbátnum Conception sem var orðinn alelda er slökkvilið kom á vettvang.

Fimm manns var bjargað úr sjónum, en báturinn er nú sokkinn og hamlar þoka á svæðinu frekara leitar- og björgunarstarfi.

Talið er að fjöldi farþega hafi verið sofandi undir þiljum þegar eldurinn kviknaði, en að fimmmenningarnir sem björguðust hafi hins vegar verið sofandi í aðalsal skipsins uppi á dekki. Var einn þeirra með minniháttar meiðsl.

Báturinn var köfunarbátur og var nýttur í skipulagðar ferðir um Channeleyja-þjóðgarðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert