Lam: Myndi hætta ef hún gæti

Carrie Lam ríkisstjóri Hong Kong segir að hún myndi hætta sem ríkisstjóri ef hún gæti og óttast að hún hafi nú orðið mjög takmarkað vald til að finna lausn á þeirri stöðu sem nú er uppi í Hong Kong. Mótmæli hafa nú staðið þar yfir í eina þrjá mánuði og virðist engin lausn í sjónmáli.

Reuters-fréttaveitan fjallar um málið og segir að Lam hafi sagst hafa valdið „ófyrirgefanlegu tjóni“. Lam hafi á fundi sem haldinn var fyrir luktum dyrum með hópi kaupsýslumanna greint frá því að hún hafi nú „mjög takmarkað“ vald til að leysa deiluna þar sem stjórnvöld á meginlandi Kína líti nú svo á að mótmælin séu orðin þjóðaröryggis- og fullveldisvandi fyrir Kína, ekki síst í ljósi vaxandi spennu í samskiptum Kína og Bandaríkjanna.

„Hefði ég eitthvert val,“ sagði Lam, „þá væri það fyrsta sem ég myndi gera að segja af mér eftir að hafa beðist innilega afsökunar.“

Carrie Lam ríkisstjóri Hong Kong segist orðið hafa takmarkað vald …
Carrie Lam ríkisstjóri Hong Kong segist orðið hafa takmarkað vald til að finna lausn á stöðunni sem nú er uppi í Hong Kong. AFP

Veitir innsýn í þankagang kínverskra stjórnvalda

Segir Reuters angistina sem fram komi í þessum orðum Lam veita skýrari innsýn í þankagang kínverskra stjórnvalda varðandi ástandið í Hong Kong en fram hafi komið til þessa. Mótmælin séu umfangsmesta stjórnmálakrísa sem kínversk stjórnvöld hafi staðið frammi fyrir frá því í mótmælunum á Torgi hins himneska friðar árið 1989.

Upphaf mótmælanna má rekja til umdeilds lagafrumvarps sem á að heimila framsal meintra brotamanna til meginlands Kína. Afgreiðslu frumvarpsins var frestað og hafa mótmælendur krafist þess að hætt verði við það alfarið. Stjórnvöld hafa ekki fallist á þá kröfu, en mótmælin hafa líka þróast yfir í kröfu um víðtækari lýðræðisumbætur.

Reglulega hefur komið til átaka milli lögreglu og mótmælenda undanfarnar vikur og urðu umtalsverðar skemmdir í mótmælum helgarinnar.

Mótmælandi í Hong Kong með mynd af ríkisstjóranum Carrie Lam.
Mótmælandi í Hong Kong með mynd af ríkisstjóranum Carrie Lam. AFP

Lítið vald til pólitískra aðgerða

Reuters segir Lam þó hafa gefið til kynna að vendipunkti væri enn ekki náð varðandi kínversk stjórnvöld og að þau hefðu enn ekki sett neinn lokafrest á að ná tökum á stöðunni fyrir fyrirhugaðan fagnað hinn 1. október, en þann dag verða 70 ár liðin frá stofnun Alþýðulýðveldisins Kína. Þá sagði hún kínversk yfirvöld „alls ekki hafa uppi áætlun“ um að senda alþýðuherinn út á götur Hong Kong, en ríki heims hafa undanfarið fylgst grannt með hvort eitthvað bendi til að það stefni í sambærilegt blóðbað og á Torgi hins himneska friðar.

Lam sagðist engu að síður eiga fárra kosta völ, nú þegar þetta flokkaðist orðið sem „þjóðmál“ og vísaði hún þar til stjórnvalda á meginlandi Kína, málið væri nú komið upp á „fullveldis- og öryggisstig, hvað þá með tilliti til ófyrirséðrar spennu milli stærstu efnahagsvelda heims“.

Við slíkar aðstæður hefði „ríkisstjórinn lítið vald til pólitískra aðgerða.“

Mótmælin í Hong Kong eru stærsta áskorun gegn stjórnvöldum sem Xi Jingping Kínaforseti hefur staðið frammi fyrir frá því hann tók við völdum árið 2012. Á sama tíma eiga kínversk stjórnvöld í tollastríði við Bandaríkin og hefur spenna í samskiptum ríkjanna farið stigvaxandi með stöðugum tollahækkunum undanfarna mánuði.

Námsmenn í Hong Kong mættu ekki til skóla í dag …
Námsmenn í Hong Kong mættu ekki til skóla í dag heldur héldu áfram að mótmæla. AFP
mbl.is