Ofurkraftar fylgja sérstöðunni

Great Thunberg.
Great Thunberg. AFP

Greta Thunberg segir að það að vera með Asperger-heilkennið geri hana öðruvísi en um leið líti hún svo á að það veiti henni ofurkrafta. Thunberg er 16 ára gömul sænsk stúlka og hefur vakið heimsathygli fyrir baráttu sína í loftslagsmálum. Hún er með Aspgerger og eru ýmsir þeir sem gagnrýna hana duglegir að benda á það.

Thunberg fjallar um þessar gagnrýnisraddir á Twitter og bendir á að áður en hún byrjaði á herferð sinni gegn hlýnun jarðar hafi hún verið orkulaus, ekki átt vini og ekki talað við neinn. „Ég sat bara ein heima og var með átröskun.“

Frétt Guardian

Thunberg segir að ástæðan fyrir því að hún hafi ekki talað mikið um það að vera á einhverfurófi snúist ekki um að vilja fela það heldur sé algengt meðal fáfróðra einstaklinga að líta á einhverfu sem veikindi eða eitthvað neikvætt. „Þegar þeir sem hata þig beina spjótum að útliti þínu og sérkennum þýðir það að þeir eru rökþrota. Og þegar svo er komið veistu að það ert þú sem ert sigurvegarinn,“ skrifarThunberg og setur myllumerkið #aspiepower við.

AFP

Þótt greiningin hafi takmarkað hana áður og gert hana aðeins öðruvísi en þetta hefðbundna þá líti hún á sérstöðu sína sem ofurkrafta. Fjögur ár eru síðan Thunberg fékk greininguna. Í júlí varð hún skotspónn dálkahöfundar Australian News Corp, Andrews Bolts, sem skrifaði harkalegan pistil þar sem hann gerði grín að greiningunni og gagnrýndi hana harkalega meðal annars með því að segja hana bilaða. Hún svaraði honum á Twitter og sagðist vera að bilast yfir hatrinu og samsæriskenningum þeirra sem afneituðu loftslagsbreytinum. Mönnum eins og Bolt.  

„Asperger-heilkenni er gagntæk truflun á þroska (e. pervasive developmental disorders eða PDD), sem flokkast með einhverfu. Megineinkenni þessarar truflunar koma í ljós snemma í bernsku og haldast síðan óbreytt, þótt aðlögun og stig raunverulegrar fötlunar séu breytileg.

Truflunin greinist sjaldnast fyrr en við þriggja ára aldur eða síðar og virðast börnin þroskast eðlilega sem ungbörn. Þau eru gjarnan talin meðfærileg og sjálfum sér nóg. Þegar betur er að gáð er þó ýmislegt sem bendir snemma til þess að eitthvað sé að, til dæmis hjala þau lítið, rétta ekki fram hendur til að láta taka sig upp og virðist oft standa á sama þótt foreldrar þeirra séu ekki nálægir. Einkennin eru mörg hin sömu og í einhverfu en taka til færri hegðunarþátta og eru sjaldan eins sterk. Ólíkt flestum einhverfum hafa einstaklingar með Asperger-heilkenni í flestum tilfellum ekki alvarlega skertan mál- og vitsmunaþroska. Talið er að allt að 5-7 af hverjum 1.000 séu með Asperger-heilkenni og að það sé 5-10 sinnum algengara hjá drengjum en stúlkum,“ segir á Vísindavef Háskóla Íslands. Þeir sem vilja lesa enn frekar geta smellt hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert