„Það versta á eftir að koma“

Fellibylurinn Dorian gengur yfir Bahamaeyjar.
Fellibylurinn Dorian gengur yfir Bahamaeyjar. AFP

Þök hafa rifnað af húsum á Bahamaeyjum og töluverð flóðahætta hefur myndast þar sem fellibylurinn Dorian er á leið sinni yfir eyjarnar með gríðarlegum vindhraða. Dorian er fimmta stigs fellibylur og er það hæsta stig sem mælst getur.

„Allir eru öruggir í húsinu en það versta á enn eftir að koma,“ sagði Simone Chandler í samtali við CNN. Chandler býr í Flórída í Bandaríkjunum en móðir hennar býr í Freeport á Bahama og sendi henni myndskeið.

Chandler bætti við að vatnshæðin fyrir utan hús móður hennar væri rosaleg og auk þess væri vatn inni í húsinu. Fjölskyldan hefði öll flúið upp á aðra hæð hússins vegna flóða.

Um 17 þúsund íbúar eru á Albaco-eyjum en hluti þeirra er kominn undir vatn. Þar hafa bílar fokið og þök fokið af húsum.

Lýst hefur verið yfir neyðarástandi í Flórída, Georgíu og Norður- og Suður-Karólínu en þangað er fellibylurinn væntanlegur á næstu dögum. 

Íbúar Flórída búa sig undir fellibylinn.
Íbúar Flórída búa sig undir fellibylinn. AFP

Ekki hafa borist fregnir af mannfalli en Rauði krossinn óttast að um 13 þúsund heimili á Bahamaeyjum séu mikið skemmd eða ónýt. 

Bandaríska fellibyljamiðstöðin NHC sagði að Dorian myndi halda áfram að „berja á Bahamaeyjum“ í dag og fram á kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert