Tuga saknað eftir eld í bát í Kaliforníu

Báturinn var í ljósum logum er slökkvilið kom að.
Báturinn var í ljósum logum er slökkvilið kom að. Ljósmynd/Ventura Fire Department

Slökkvilið og hjálparsveitir hafa unnið að því að reyna að bjarga tugum manna sem voru fastir um borð í báti sem var í ljósum logum nærri Santa Cruz-eyjunni í Kaliforníu. Dagblaðið LA Times segir 30 manns hið minnsta vera saknað og að vitað sé að einhverjir hafi farist, þótt yfirvöld hafi ekki enn staðfest það.

Talið er að margir þeirra sem um borð voru hafi verið sofandi undir þiljum þegar eldurinn kom upp.

Tilkynning um eldinn barst um hálffjögurleytið í morgun að staðartíma og þegar slökkvilið Ventura-sýslu kom á vettvang var báturinn í ljósum logum. „Okkur tókst að bjarga fimm manns úr sjónum,“ hefur LA Times eftir varðstjóranum Brian McGrath.

„Mesta eldhafið hefur nú verið slökkt, en það logar þó enn víða.“ Slökkviliðið birti á Twitter myndir af slökkviliðsmönnum við störf á vettvangi.

„Við höfum ekki enn staðfestan fjölda einstaklinga sem áttu að vera um borð,“ bætti McGrath við. „Við vitum að einhverjir hafa farist en vitum ekki enn hve margir.“ Unnið er að því að fá lista yfir þá sem áttu að vera um borð.

BBC segir bátinn hafa verið notaðan í köfunarleiðangra.

mbl.is