Blóði drifin slóð Dorian

Held­ur hef­ur dregið úr styrk felli­bylj­ar­ins Dori­an og er hann nú flokkaður sem þriðja stigs felli­byl­ur eft­ir að hafa um tíma náð fimmta stigi. Vind­hraði Dori­an mæl­ist nú 56 metr­ar á sek­úndu. Dori­an er enn yfir Bahamaeyj­um og eru íbú­ar á Grand Bahama-eyju beðnir að halda kyrru fyr­ir í neyðar­skýl­um þar sem þetta sé hvergi nærri búið.

Ástandið á Grand Bahama er skelfilegt, að því er fram kemur í bandarískum fjölmiðlum, en þar kom Dorian sér fyrir og barði á eyjarskeggjum af alefli með skelfilegum afleiðingum. Nánast allan mánudaginn mældist vindhraðinn þar rúmir 80 metrar á sekúndu.

Forsætisráðherra Bahamaeyja, Hubert A. Minnis, segir sögulegar hörmungar eiga sér þar stað um þesar mundir. Ekki síst á norðurhluta eyjaklasans. Mestu skipti að leita, bjarga og ná bata. Ómögulegt er að segja til um hvert tjónið er annað en að það er gríðarlegt. 

Shani Bowd, íbúi á eyjunum, segir í samtali við CNN-fréttastofuna að öll herbergi heimilis síns hafi fyllst af vatni, vatnshæðin hafi verið 120-150 cm.

„Öll húsgögnin voru á floti, jafnvel baðherbergið. Allt er ónýtt. Áður höfðum við sett allt eins hátt upp og við gátum. Nú nær vatnið okkur að hnjám og lækkar stöðugt. En það flýtur allt á milli herbergja. Ein helsta ástæðan fyrir því að við urðum að forða okkur er hversu heilsuspillandi þetta er.“

En Bowd var enn heima ásamt fleirum, þar á meðal fjórum börnum, þegar CNN ræddi við hana. Hún segist ekki hafa hugmynd um hvernig þau ættu að geta forðað sér, slíkur er ofsinn í veðrinu. Hún segir að þetta sé miklu verra en hægt hafi verið að ímynda sér.

„Fellibylurinn Matthew var slæmur. Ég hélt að fellibylurinn Matthew yrði það versta en þessi er tíu sinnum verri,“ segir Bowd í viðtali við CNN.

Íbúar í Norður-Karólínu eru byrjaðir að yfirgefa heimili sín enda styttist í að stormurinn nái þangað. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna en að minnsta kosti fimm eru látnir á Bahamaeyjum. Óttast er að þeir séu mun fleiri og ekki er vitað hversu margir hafa slasast í fárviðrinu.

Hér er hægt að fylgjast með Dorian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert