Getur enn valdið miklum skaða

Loftmynd frá bandarísku strandgæslunni sem sýnir báta liggja eins og …
Loftmynd frá bandarísku strandgæslunni sem sýnir báta liggja eins og hráviður i höfn á Bahamaeyjum eftir Dorian. AFP

Fellibylurinn Dorian, sem nú er kominn niður í annars stigs fellibyl, er nú á leið frá Bahamaeyjum. Bandaríska fellibyljamiðstöðin NHC segir Dorian, sem nú stefnir á Flórída, þó enn geta valdið miklum skaða.

Greint hefur verið frá því að fimm hið minnsta hafi farist á Bahamaeyjum af völdum Dorian og sagði almannavarnaráðherrann Marvin Dames nokkur börn vera í hópi hinna látnu. Kvaðst hann jafnframt eiga von á að tala látinna myndi hækka frekar.

„Ég sé ekki að komist verði hjá því,“ hefur dagblaðið Nassau Guardian eftir Dames.

„Þetta er algjör eyðilegging. Þær eru í rúst. Þetta eru hamfarir og minnir mest á sprengju sem hefur sprungið,“ hefur Guardian eftir Lia Head-Rigby, sem rekur hjálparstarf fyrir fórnarlömb fellibylja. „Þetta mun ekki snúast um að endurreisa það sem var áður. Þarna þarf að byrja frá grunni.“ 

Loftmyndir sem CNN-sjónvarpsstöðin hefur birt í dag af Abacos-eyju, sem er hluti Bahamaeyja, sýnir hversu umfangsmikil eyðileggingin er. Heilu þökin hafa svipst af hundruðum húsa, bílar liggja á hvolfi, brak er á víð og dreif og flóð má sjá víða.

„Þetta var hættuástand af einstæðu umfangi,“ sagði Dames. „Mögulega það versta sem við höfum upplifað, að minnsta kosti á okkar æviskeiði.“

Alþjóðaflugvöllurinn á eyjunni Grand Bahama er meðal þeirra svæða sem eru umflotin vatni og hefur það hamlað björgunaraðgerðum. Sjúkrahúsið í borginni Freeport er einnig undir vatni og hafa sjúklingar neyðst til að yfirgefa það.

Þúsundir eru án húsaskjóls og eru strandaglópar á flóðasvæðum. Þá má gera ráð fyrir að íbúar standi frammi fyrir matvæla- og lyfjaskorti næstu daga. 

Bandaríska strandgæslan hefur sent þyrlur á staðinn til að aðstoða við björgunar- og leitaraðgerðir, en fjöldi íbúa er fastur á heimilum sínum vegna flóðavatnsins og hefur neyðarlínunni borist mikill fjöldi símtala.

Hefur strandgæslan flutt flugleiðina að minnsta kosti 21 sem slasaðist vegna fellibylsins á brott frá Abaco og þá hafa björgunarmenn nýtt sæþotur til að aðstoða fólk. 

Fer „hættulega nærri“ strönd Flórída í nótt

Vindhraði Dorian er nú um 180 km/klst og segir NHC fellibylinn fara „hættulega nærri“ austurströnd Flórída og strandlengju Georgíuríkis í kvöld og nótt áður hann heldur lengra norðureftir annað kvöld.

Þótt dregið hafi verulega úr vindstyrk fellibylsins hefur hann á sama tíma stækkað að umfangi og stafar umtalsverð sjávarflóðahætta enn af honum.

Rick Scott, öldungadeildarþingmaður Flórída, hvatti íbúa ríkisins til að fylgja eftir ábendingum um að yfirgefa svæðið á meðan tími gæfist til.

Neyðarástandi hef­ur verið lýst yfir í þrem­ur ríkj­um Banda­ríkj­anna; Flórída, Georgíu og Suður-Karólínu, og hafa 5.000 þjóðvarðliðar og 2.700 hermenn verið virkjaðir reynist þörf á aðstoð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert