Hræðilegar aðstæður á Lesbos

AFP

Gríska ríkisstjórnin hefur ákveðið að grípa til neyðarráðstafana vegna fjölgunar flóttafólks til eyjanna í Eyjahafi. Á aðeins nokkrum klukkustundum komu 650 að landi á eyjunni Lesbos, þar á meðal 240 börn. 

Moria-flóttamannabúðirnar á Lesbos.
Moria-flóttamannabúðirnar á Lesbos. AFP

Ákveðið hefur verið að flytja um 1.500 flóttamenn frá Moria-flóttamannabúðunum á Lesbos en búðirnar eru yfirfullar og aðstæður skelfilegar, samkvæmt upplýsingum frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR. 

Stjórnvöld hafa óskað eftir aðstoð Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins á landamærunum og að gæsla þar verði aukin. 

Byrjað var að flytja flóttafólkið frá Lesbos í gær en aðstæðurnar í Moria voru nánast óbærilegar en gríðarlegur hiti er á þessum slóðum.

Skammt frá Moria.
Skammt frá Moria. AFP

Fyrsti hópurinn, 635 Afganar, fór frá Moria í gær og var siglt með hann að meginlandinu. Þar verður fólkinu komið fyrir í flóttamannabúðum í norðurhluta landsins.

„Ég vonast til þess að komast úr þessu helvíti með hraði,“ sagði Mohamed Akberi í samtali við AFP-fréttastofuna en hann kom til Moria fimm dögum fyrr. Flestir þeirra sem voru fluttir úr Moria-búðunum í gær eru börn sem eru fylgdarlaus á flóttanum og fólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Auk þess að hraða umsóknarferlinu stendur til að senda fólk strax til Tyrklands þegar umsókn um hæli hefur verið hafnað. 

Aukin spenna er í samskiptum Grikkja og Tyrkja vegna þess mikla fjölda flóttafólks sem kemur á grísku eyjarnar í Eyjahafi en aðeins nokkrir km skilja löndin þar að. Frá því ESB gerði samkomulag við Tyrki um endursendingar fólks árið 2016 dró verulega úr komu flóttafólks til ríkja ESB en svo virðist sem fleiri séu farnir að komast yfir hafið. 

Samkvæmt upplýsingum frá UNHCR eru um 11 þúsund flóttamenn á Lesbos sem er fjórfalt fleiri en eyjan getur hýst. Í ágúst komu þangað um þrjú þúsund flóttamenn. 

Úr tjaldbúðum við Moria-flóttamannabúðirnar á Lesbos.
Úr tjaldbúðum við Moria-flóttamannabúðirnar á Lesbos. AFP

Fahimeh Nourmohammadi hefur verið á Lesbos í þrjár vikur ásamt eiginmanni og tveimur sonum. Þau flúðu frá Íran vegna trúarskoðana. Hún segir við fréttamann AFP að hún upplifi mikið óöryggi á Lesbos en fyrir rúmri viku var ungur Afgani stunginn til bana í Moria-búðunum. Hennar helsti draumur er að synir hennar, 12 og 16 ára, geti farið aftur í skóla. „Í Moria geta þeir ekki farið í skóla, þeim leiðist og þeir eru hræddir á nóttunni.

Við komum alla þessa leið í þeirri von að eignast framtíð. Að geta búið við lýðræði  ekki til þess að búa í heilsuspillandi búðum,“ segir Fahimeh Nourmohammadi.

AFP
Fyrir utan Moria á Lesbos.
Fyrir utan Moria á Lesbos. AFP
Moria-búðirnar eru löngu sprungnar.
Moria-búðirnar eru löngu sprungnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert