Walmart hættir sölu skotfæra

Walmart er stærsta verslanakeðja Bandaríkjanna. Þar verður ekki lengur hægt …
Walmart er stærsta verslanakeðja Bandaríkjanna. Þar verður ekki lengur hægt að kaupa skotfæri. AFP

Walmart-verslanakeðjan hefur tilkynnt að hætt verði að selja skotfæri fyrir skammbyssur, haglabyssur og riffla. Einnig verði hætt að selja skammbyssur í verslunum fyrirtækisins í Alaska, sem eru einu Walmart-verslanirnar sem enn selja skammbyssur.

CNN greinir frá og segir viðskiptavini Walmart einnig beðna að taka ekki með sér vopn inn í verslanirnar.

Mánuður er nú frá því að 20 manns létust í skotárás í verslun Walmart í El Paso í Texas og hafa stjórnendur verslanakeðjunnar verið meðal þeirra sem þrýst hafa á bandarískan þingheim um herta byssulöggjöf.

Walmart er stærsta verslanakeðja Bandaríkjanna. CNN segir Walmart hafa tilkynnt að hætt verði sölu á skotfærum í öllum 4.700 verslunum fyrirtækisins og að viðskiptavinir verði beðnir að koma ekki með vopn sín inn í verslanirnar í þeim ríkjum sem heimili slíkan vopnaburð.

Í minnisblaði sem starfsmenn Walmart fengu sent i dag segir forstjórinn Doug McMillon skotárásina í El Paso ástæðu þessara breytinga og það séu raunar líka nýlegar skotárásir í Dayton Ohio, Midland og Odessa í Texas.

„Við flóknar aðstæður sem skortir einfalda lausn erum við að reyna að taka uppbyggileg skref til að draga úr hættunni á að slíkt muni gerast aftur,“ sagði McMillon. „Núverandi staða er óviðunandi.“

Walmart greindi nýlega frá því að um 2% vopnasölu í Bandaríkjunum færu í gegnum fyrirtækið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert