Boris: „Núna verða að fara fram kosningar“

Boris Johnson forsætisráðherra bað breska þingið í kvöld um að …
Boris Johnson forsætisráðherra bað breska þingið í kvöld um að samþykkja þingkosningar um miðjan október. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, bað breska þingið nú í kvöld að greiða atkvæði með því að þingkosningar færu fram í Bretlandi hinn 15. október. Neðri deild breska þingsins hafði skömmu áður samþykkt laga­frum­varp þess efn­is að út­göngu Bret­lands yrði frestað fram á næsta ár tækist Johnson ekki að ná samningi við Evrópusambandið um útgönguna fyrir 31.október.

BBC segir frumvarpið nú á leið í lávarðadeildina sem verði einnig að samþykkja það.

Johnson hefur sagt að frumvarpið komi í veg fyrir samningslaust Brexit og þar með fái ESB völdin í hendur í viðræðunum. Með því verði hann í raun að gefast upp og það neiti hann að gera.

„Núna verða að fara fram kosningar þriðjudaginn 15. október,“ sagði Johnson eftir að frumvarp stjórnarandstöðunnar var samþykkt með 28 atkvæða meirihluta.

Samkvæmt breskri kosningalöggjöf verða tveir þriðju hlutar þingmanna að vera því samþykkir að gengið verði til þingkosninga. Það þýðir að Johnson þarf á stuðningi Verkamannaflokksins að halda, en flokkurinn hefur sagst ekki munu samþykkja slíkt fyrr en Brexit-frumvarpið hefur verið samþykkt.

„Forsætisráðherrann fullyrðir að hann sé með ráðagerð en hann getur ekki sagt okkur hver hún er,“ sagði Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, og sagði tilraun forsætisráðherrans til að boða til kosninga nú „kaldhæðnislega“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert