Var tekin með barn í handfarangrinum

Ferðataska. Mynd úr safni.
Ferðataska. Mynd úr safni.

Bandarísk kona er nú í varðhaldi á Filippseyjum eftir að hafa reynt að fljúga úr landi með ungbarn í handfarangrinum.

CNN greinir frá og hefur eftir Melvin Mabulac, talsmanni innflytjendaeftirlitsins á Filippseyjum, að það hafi verið á sjöunda tímanum í morgun sem 43 ára kona var gripin með barn í farangri sínum á Ninoy Aquino-alþjóðaflugvellinum í höfuðborginni Manila.

Segir CNN barnið ekki hafa verið nema sex daga gamalt.

Að sögn Mabulac virtist konan vera ein á ferð og framvísaði hún eingöngu sínu vegabréfi. Þegar starfsfólk flugvallarins skoðaði hins vegar stóru ferðatöskuna sem hún var með fyrir handfarangur fann það barnið þar ofan í.

„Hún var ekki með neina ferðapappíra fyrir barnið,“ segir Mabulac.

Konan fullyrti að hún væri frænka barnsins en gat ekki lagt fram neinar sannanir þess efnis að þau væru skyld.

Málið hefur nú verið sett í hendur mansalsdeildar filippseysku lögreglunnar.

mbl.is