Fannst látin skammt frá Madrid

Blanca Fernández Ochoa keppti á fernum Ólympíuleikum.
Blanca Fernández Ochoa keppti á fernum Ólympíuleikum. Bíógrafías.es

Lík spænsku skíðakonunnar Blöncu Fernández Ochoa er fundið en hennar hefur verið leitað dögum saman. Hundruð lögreglumanna og sjálfboðaliða tóku þátt í leitinni en Fernández hafði verið saknað frá 23. ágúst.

Fernández var 56 ára að aldri. Hún fannst í fjalllendi skammt frá Madrid. Lögreglan rannsakar dánarorsök hennar en 1. september fannst svartur Mercedes Benz-bíll sem Fernández hafði ekið í bæ skammt frá Madrid.

Hún var fyrsta spænska konan til þess að vinna til verðlauna á vetrarólympíuleikum en hún hlaut brons í alpagreinum í Albertville árið 1992.

„Þetta er sorgardagur fyrir spænska íþróttaheiminn,“ segir María José Rienda, ráðherra íþróttamála. 

Það var dóttir Fernández, Olivia Fresneda, sem tilkynnti hvarf hennar til lögreglu seint í ágúst. Blanca Fernández, sem hafði afar gaman af fjallgöngum, fór að heiman án síma og hafði ekki notað greiðslukort sín frá því hún hvarf, að sögn lögreglu. Það var leitarhundur sem fann lík hennar í gær. 

Blanca Fernández Ochoa fæddist í Madrid árið 1963. Hún tók þátt í keppni á fernum vetrarólympíuleikum frá árinu 1980 til 1992. Hún er ein fimm systkina sem kepptu fyrir hönd Spánar á vetrarólympíuleikum. Bróðir hennar, Francisco Fernández Ochoa, varð fyrstur Spánverja til þess að vinna til gullverðlauna á vetrarleikum en það var árið 1972 í Sapporo í Japan.

Frétt BBC

mbl.is