Kviknaði eldurinn út frá hleðslustöð?

Köfunarbáturinn Conception gjöreyðilagðist og sökk á hafsbotn í eldsvoðanum. 34 …
Köfunarbáturinn Conception gjöreyðilagðist og sökk á hafsbotn í eldsvoðanum. 34 af þeim 39 sem um borð voru fórust í eldinum. AFP

Hleðslustöð fyrir síma kann að hafa valdið eldinum sem kviknaði í köfunarbátnum Conception úti fyrir strönd Kaliforníu með þeim afleiðingum að 34 létu lífið. Bandaríska dagblaðið LA Times hefur þetta eftir einum þeirra fimm úr áhöfn skipsins sem sluppu lifandi úr eldinum.

Fimmmenningarnir voru sofandi í sal á dekki skipsins þegar áhafnarmeðlimurinn vaknaði við skyndilegan hávaða. Hann opnaði því næst dyrnar að stýrishúsinu og við honum blasti mikið eldhaf neðan úr messa skipsins. Greint hefur verið frá því að talið sé að þeir sem létust hafi verið í fastasvefni neðan þilja er eldurinn kom upp.

Á meðan eldurinn logaði í bátnum snemma mánudagsmorguns hringdi skipstjórinn í strandgæsluna og því næst stökk hann, ásamt fjórum úr áhöfninni, í sjóinn. Þeir klifruðu því næst um borð í gúmmíbát þar sem þeir biðu þess að fá aðstoð frá fiskibáti sem lá fyrir akkeri úti fyrir Santa Cruz-eyju.

Shirley Hansen, eigandi fiskibátsins Grape Escape, segir áhafnarmeðliminn sem hún ræddi við hafa sagt eldinn eiga upphaf sitt í hleðslustöð í messanum þar sem farsímum og myndavélum hafði verið stungið í samband yfir nóttina.

„Sú tilfinning sem ég fékk var að eldurinn hefði þá þegar verið orðinn of mikill til að gera eitthvað,“ sagði Hansen.

Rannsókn á upptökum eldsins er enn í gangi og eru rannsakendur enn að reyna að ákvarða upphafsstað eldsins og hver kveikjan var.

LA Times segir hleðslustöðina í messanum vera einn möguleika sem nú er til skoðunar.

Roy Hauser, sem hannaði bátinn og lét smíða árið 1981, telur eldinn þó hafa getað kviknað í kojurýminu. Þá skoðun sína byggir hann á myndum sem hann hefur séð af brunnum skipskrokknum. Telur hann þetta geta verið ástæðu þess að eldurinn breiddist svo hratt út að enginn þeirra sem þar voru niðri komst út.

„Að mínu mati hlýtur þetta að hafa verið einhvers konar hleðslustöð fyrir liþíumbatterí,“ sagði Hauser. „Þetta gerðist í maga skipsins og þetta fólk átti ekki möguleika á að komast út. Skipið logaði frá stafni aftur í skut.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert