Yfir 1.000 nöfn í símaskrá Epsteins

Jeffrey Epstein. Skjöl úr einkamáli sem höfðað var gegn vinkonu …
Jeffrey Epstein. Skjöl úr einkamáli sem höfðað var gegn vinkonu hans Ghislaine Maxwell og tengjast honum, hafa nú verið gerð opinber. AFP

Bandarískur alríkisdómstóll rauf á föstudag innsigli á um 2.000 síðum dómsskjala tengdra auðkýfingnum og barnaníðingnum Jeffrey Epstein. Reuters segir gögnin sem um ræðir vera hluta af einkamáli sem Virginia Giuffre höfðaði árið 2015 gegn Ghislaine Maxwell, vinkonu Epsteins um árabil, en Guiffre er ein þeirra kvenna sem hafa sakað Epstein um kynferðislegt ofbeldi.

Epstein, sem talinn er hafa svipt sig lífi í fangelsi á Manhattan 10. ágúst, hafði lýst sig saklausan af ákærum um mansal á stúlkum niður í 14 ára aldur.

Guif­fre og Maxwell sömdu um málið utan dóm­stóla árið 2017, en hluti gagnanna var gerður opinber 9. ágúst, degi áður en Epstein svipti sig lífi. Geymdu þau gögn lýsingar á misnotkun Epsteins á stúlkum undir lögalrdi, sem og ásakanir um kynferðislega misnotkun af hendi vina og kunningja auðkýfingsins.

Þannig sagði Giuffre í vitnaskýrslu sinni að sér hefði verið skipað að hafa mök við eiganda hótelkeðju, fyrrverandi umboðsmann franskrar módelskrifstofu, virtan vísindamann, fyrrverandi ríkisstjóra og tvo þjóðarleiðtoga. Er Andrew Bretaprins í hópi þeirra sem hún nafngreindi.

Hluti þeirra gagna sem voru lögð fram í einkamáli gegn …
Hluti þeirra gagna sem voru lögð fram í einkamáli gegn Ghislaine Maxwell og sem innsigluð voru í kjölfarið hafa nú veirð tekin upp að nýju. AFP

Fljótt orðin kynlífsþræll Epsteins

Fram kom í vitn­is­b­urði Guif­fre að hún hefði verið ráðin í vinnu hjá Ep­stein sum­arið 2000, er hún var 16 ára göm­ul, og að Maxwell hefði ráðið hana. Hún lýsti því sem svo að hún hefði verið ráðin sem nudd­kona, en fljót­lega hefði hún verið orðin „kyn­lífsþræll“ Ep­steins.

„Líf mitt sner­ist um að geðjast þess­um mönn­um og að halda Ghislaine og Jef­frey ánægðum,“ sagði Giuf­fre. „Líf þeirra sner­ist ein­göngu um kyn­líf.“

New York Times segir nöfn yfir 1.000 einstaklinga vera að finna í símanúmerabók Epsteins og hefur þegar einn ónefndur maður farið þess á leit við dómara að nafn sitt og annarra verði ekki opinberað af ótta við þann skaða sem það geti valdið mannorði þeirra.

Segir í umsókn hans að ásakanirnar gegn Epstein séu þess eðlis að fólk í hans samfélagsstöðu óttist að öll tengsl við Epstein geti valdið skaða, en þegar Epstein lést var ósvarað fjölmörgum spurningum um hverjir aðrir kynnu að hafa átt aðild að misnotkuninni.

„Það eru hundruð manna bendluð við málið í skjölunum,“ segir lögfræðingurinn Jeffrey S. Pagliuca, er beiðnin var tekin fyrir hjá alríkisdómstólnum á Manhattan. „Það er mikill fjöldi fólks.“ Sagði hann einstaklinga nafngreinda í 29 vitnisburðum í ítarlegri rannsóknarskýrslu og í „símanúmerabók“ sem geymdi yfir 1.000 nöfn.

Haft verði samband við alla sem eru nafngreindir

Dómarinn, Loretta A. Preska, hefur ekki enn úrskurðað hvort strika eigi yfir nöfnin, en hefur sagt að þeir sem þar eru nefndir á nafn geti fengið að færa rök fyrir máli sínu áður en ákveðið verður hvaða skjöl verða gerð opinber.

Preska sagði það vissulega tímafreka nákvæmnisvinnu að fara í gegnum skjalasafnið og hafa samband við þau hundruð einstaklinga sem þar eru nafngreindir. „Við verðum hins vegar að gera það,“ sagði hún.

Preska hefur einnig sagt að hún vilji gera skjölin opinber sem fyrst og hefur því beðið lögfræðinga að útbúa hið fyrsta útdrátt yfir þau gögn sem þeir telja eiga mest erindi við almenning.

Tæplega fimmti hluti þeirra gagna sem lögð voru fram í einkamáli Guiffre var innsiglaður á sínum tíma að fyrirskipan áfrýjunardómstóls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert