Boris gert skylt að biðja um frest

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands í dag, í heimsókn á nautgripabúi …
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands í dag, í heimsókn á nautgripabúi nærri Aberdeen í Skotlandi. AFP

Lávarðadeild breska þingsins hefur samþykkt Brexit-frumvarp sem ætlað er að koma í veg fyrir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu án samnings 31. október.

Samkvæmt lögunum er Boris Johnson forsætisráðherra skylt að óska eftir því við Evrópusambandið að útgöngu Bretlands verði frestað um þrjá mánuði, ef breska ríkisstjórnin og Evrópusambandið verða ekki búin að komast að samkomulagi um útgönguna 19. október.

Frumvarpið fór í gegnum lávarðadeildina án þess að á því væru gerðar neinar breytingar og mun verða að lögum um leið og Elísabet Bretlandsdrottning samþykkir það formlega, en það ætti að gerast á mánudag.

Boris John­son hef­ur sagt að frum­varpið komi í veg fyr­ir samn­ings­laust Brex­it og þar með fái ESB völd­in í hend­ur í viðræðunum. Með því verði hann í raun að gef­ast upp og það neiti hann að gera. Í gær sagði hann að hann vildi fremur vera „dauður úti í skurði“ (e. dead in a ditch) en að fara til ESB og biðja um tilgangslausa frestun á útgöngu Bretlands.

Johnson er á ferð um Skotland í dag. Þar sagði hann við fjölmiðlafólk að hann teldi ólíklegt að útganga Bretlands yrði án samnings og kvaðst sannfærður um að hann myndi komast að samkomulagi á leiðtogafundi ESB, sem fram fer 17. október.

mbl.is