Þriðja dauðsfallið af völdum rafrettna staðfest

Þriðja dauðsfallið sem rekja má til notkunar rafrettna var staðfest …
Þriðja dauðsfallið sem rekja má til notkunar rafrettna var staðfest í Indiana-ríki í Bandaríkjunum í gær. AFP

Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum hvetja fólk til að hætta að nota rafrettur á meðan verið er að rannsaka þriðja dauðsfallið sem rekið er til veiki af völdum rafrettna. Talið er að 450 manns í Bandaríkjunum hafi orðið veikir vegna notkunar rafrettna.

The Wall Street Journal greinir frá.

„Meðan á rannsókn stendur ætti fólk að íhuga alvarlega að hætta að nota rafrettur,“ sagði í fréttatilkynningu frá samtökum gegn útbreiðslu sjúkdóma (e. Centers for Disease Control and Prevention). Talsmenn stofnunarinnar mæla einnig með því að fólk hætti að kaupa rafrettur af götusölum og reyni ekki að taka tækin í sundur til að reyna breyta þeim á neinn hátt.

Þriðja dauðsfallið sem rekja má til notkunar á raftækjunum var staðfest í gær. Hinn látni var búsettur í Indianaríki í Bandaríkjunum. Dauðsföll hafa einnig átt sér stað í Illinois og Oregon.

Tengsl við maríjúana- og nikótínvökva

Talsmaður stofnunarinnar CDCP sagði að verið væri að rannsaka 450 mál í 33 ríkjum Bandaríkjanna og að tölur sýndu að tilfelli, þar sem einstaklingar hafa veikst, hefðu tvöfaldast á einni viku.

Enn er ekki vitað hvað nákvæmlega veldur veikindunum en heilbrigðisyfirvöld segja tengsl á milli þeirra og notkunar á rafrettuvökva sem inniheldur maríjúana eða nikótín.

Svo virðist sem tengsl séu á milli veikindana og notkunar …
Svo virðist sem tengsl séu á milli veikindana og notkunar á vökva sem inniheldur maríjúana og/eða níkótín. AFP

Þurfi að bregðast hratt við faraldri

„Þrátt fyrir að frekari rannsókna sé þörf er ljóst að um faraldur er að ræða og áríðandi að bregðast við strax,“ skrifaði David Christiani, prófessor í lýðheilsuvísindum við Harvard-háskóla, í ritstjórnargrein sem birtist í the New England Journal of Medicine í dag.

mbl.is