Kim húðskammaði embættismenn

Kim Jong-un, einræðisherra N-Kóreu, var allt annað en sáttur.
Kim Jong-un, einræðisherra N-Kóreu, var allt annað en sáttur. AFP

Það fauk hressilega í Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, sem húðskammaði norðurkóreska embættismenn fyrir að taka komu fellibyljarins Lingling af léttúð. Búist er við að óveðrið skelli á norðurhluta landsins síðar í dag eftir að hafa farið fram hjá strandlengju Suður-Kóreu.

Kim hélt neyðarfund í gær og sagði að mikil hætta væri í aðsigi en þrátt fyrir það væri allur viðbúnaður yfirvalda ekki ásættanlegur. Frá þessu greinir norðurkóreska ríkisfréttastofan KCNA. 

Kim sagði að embættismenn í landinu gerðu sér ekki grein fyrir alvöru málsins. 

Norður-Kórea stendur berskjölduð gagnvart náttúruhamförum, ekki síst flóðum, sem á rætur að rekja til lélegra innviða og skógareyðingar í þessu fátæka landi.

Mikill öldungangur við borgina Busan í Suður-Kóreu.
Mikill öldungangur við borgina Busan í Suður-Kóreu. AFP

Að minnsta kosti einn er sagður hafa látist af völdum óveðursins í S-Kóreu, en þar mældist vindhraðinn um 35 metrar á sekúndu.

Kona um sjötugt lét lífið þegar vindhviða feykti henni til í borginni Boryeong, sem er um 140 km suðvestur af höfuðborginni Seúl.

Þá var um 230 flugferðum aflýst vegna veðurs og um 30.000 heimili voru án rafmagns. 

Veðurstofan í S-Kóreu hefur varað við aurskriðum og flóðum og hvatt almenning til að halda sig innandyra. 

mbl.is