Lögmaður A$AP Rocky skotinn í Stokkhólmi

Henrik Olsson Lilja.
Henrik Olsson Lilja. AFP

Þekktur sænskur lögmaður sem komst í heimsfréttirnar fyrir að vera verjandi bandaríska tónlistarmannsins A$AP Rocky, sem var ákærður fyrir líkamsárás þar í landi, var skotinn nokkrum sinnum í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar.

Lögreglu í borginni barst tilkynning um skotárás í Kungsholmen-hverfinu um klukkan níu að staðartíma í gær. Einn maður á sextugsaldri var fluttur á sjúkrahús með skotáverka. Lögmannafélagið í Svíþjóð hefur staðfest að þetta hafi verið lögmaðurinn Henrik Olsson Lilja.

Lilja er alvarlega særður en ástand hans er sagt stöðugt. Einn maður hefur verið handtekinn í tengslum við málið, að því er segir á vef BBC. 

Rocky var handtekinn í Stokkhólmi í kjölfar líkamsárásar sem átti sér stað utandyra í Stokkhólmi 30. júní. 

Sænska lögreglan segir að árásin tengist ekki öðrum ofbeldisverkum í borginni. Um einangrað atvik sé því að ræða.

Tónlistarmaðurinn A$AP Rocky.
Tónlistarmaðurinn A$AP Rocky. AFP

Lilja var skotinn í höfuð og brjóstkassa við heimili sitt í borginni. Honum tókst sjálfum að hringja eftir aðstoð lögreglu úr síma nágranna síns. 

Sjónarvottur segir að Lilja hafi verið skotinn er hann átti í átökum við annan mann. Árásarmaðurinn flúði á brott í svörtum sendiferðabíl og gengur hann enn laus, að því er fram kemur í sænskum fjölmiðlum.

Kona sem tengist Lilja er í haldi lögreglu. Hún starfar einnig sem lögmaður. Þá hafa fjölmargir verið yfirheyrðir í tengslum við málið sem er rannsakað sem tilraun til manndráps. 

mbl.is