Skammaði undirmenn sína vegna fellibylsins

Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un, hélt neyðarfund með embættismönnum sínum á …
Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un, hélt neyðarfund með embættismönnum sínum á föstudag. AFP

Fellibylurinn Lingling skall á Norður-Kóreu í morgun og eru minnst fimm látnir og yfir 460 hús skemmd eða ónýt, auk þess sem flæddi yfir 460 ferkílómetra af ræktarlandi. Matarskortur er í landinu og er talið að hann muni versna í kjölfar Lingling.

Lingling olli einnig talsverðum skaða hjá nágrönnum þeirra í Suður-Kóreu, en þar liggja þrír í valnum og tugþúsundir voru án rafmagns.

Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un, hélt neyðarfund með embættismönnum sínum á föstudag þar sem hann skammaði þá fyrir að hafa ekki sinnt undirbúningi fyrir fellibylinn nægilega vel.

Samkvæmt ríkisfréttastofu Norður-Kóreu, KCNA, einbeitti ríkisstjórnin sér hvað helst að því að gæta uppskeru, stíflna og vatnsgeyma.

Dregið hefur úr styrk Lingling, en hann er nú á leið sinni í átt að meginlandi Kína.

mbl.is