Breska þinginu verður slitið í dag

AFP

Talsmaður Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur tilkynnt að breska þinginu verði slitið í dag. Þetta kemur fram á fréttavef breska dagblaðsins Independent.

Eftir að þinginu verður slitið í dag mun það ekki koma næst saman fyrr en 14. október en Elísabet Bretadrottning samþykkti í síðasta mánuði tillögu Johnsons þess efnis.

Þingmenn í stjórnarandstöðunni hafa gagnrýnt ákvörðun þá Johnsons að slíta þinginu en stjórnvöld segja fullkomlega eðlilegt sem og tímabært að gera það.

Tvö dómsmál hafa verið höfðuð vegna ákvörðunar Johnsons en báðum málunum hefur verið vísað frá. Öðru þeirra hefur verið áfrýjað til hæstaréttar Bretlands.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Greidd verða atkvæði áður en þingi verður slitið um tillögu Johnsons um að þingkosningar fari fram um miðjan október. Fyrri tillögu þess efnis var hafnað í síðustu viku.

Stjórnvöld hafa sagt að þau ætli ekki að óska eftir frekari frestun á útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu þrátt fyrir að lög þess efnis hafi verið samþykkt fyrir helgi.

Talsmaður Johnsons hefur sagt að vilji stjórnarandstaðan koma í veg fyrir útgönguna sé besta leiðin til þess að samþykkja kosningar og leggja málið í dóm kjósenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert