Gróðureldarnir „fyrirboði“ um það sem koma skal

Vatni sleppt úr flugvél yfir Binna Burra í Queensland. Eldar …
Vatni sleppt úr flugvél yfir Binna Burra í Queensland. Eldar loguðu á yfir 50 stöðum í fylkinu í gær. AFP

Yfir 100 gróðureldar loga nú í tveimur fylkjum Ástralíu, en óvenjulegt er að gróðureldar kvikni svo snemma að vorlagi í álfunni og telja yfirvöld fulla ástæðu til að vara við að þetta kunni að vera fyrirboði um það sem koma skal.

Rúmlega 50 eldar loguðu í Queensland á sunnudag og segja veðurfræðingar ekki útlit fyrir að það dragi á næstunni úr sterkum vindum sem kynt hafa undir eldunum. Þá brann rúmlega 56.000 hektara svæði í New South Wales í einum slíkum eldi.

BBC hefur eftir áströlskum embættismanni að aðstæður nú séu „fyrirboði“ þess sem kunni að gerast í sumar.

„Við höfum aldrei, frá því mælingar hófust, upplifað svo alvarlegt eldaveður þetta snemma vors,“ sagði Andrew Sturgess hjá neyðarþjónustu Queensland.

Vitað er til þess að 20 landareignir hafi eyðilagst í eldunum. Enginn hefur farist en einn slökkviliðsmaður er í lífshættu eftir brunasár sem hann hlaut í baráttu við gróðurelda í New South Wales á föstudag.

Úrkoma hefur verið undir meðallagi við austurströnd Ástralíu sl. tvö ár sem hefur valdið þurrkum á sumum svæðum.

mbl.is