Nýnasisti kjörinn bæjarstjóri í Þýskalandi

Stefan Jagsch í NPD-flokknum er nýr borgarstjóri Waldsiedlung.
Stefan Jagsch í NPD-flokknum er nýr borgarstjóri Waldsiedlung. AFP

Mörgum háttsettum stjórnmálamönnum ýmissa stjórnmálaflokka í Þýskalandi er misboðið eftir að nýnasistinn Stefan Jagsch úr NPD-flokknum var kjörinn bæjarstjóri smábæjar í Hessen-ríki í Þýskalandi.

BBC greinir frá.

Jagsch var einn í framboði borgarstjóra smábæjarins Waldsiedlung og fékk því öll atkvæði sjö borgarfulltrúa bæjarins. Í Waldsiedlung búa 2.650 manns.

Tvisvar hefur verið reynt að banna NPD-flokkinn í Þýskalandi en því var hafnað í bæði skiptin af stjórnlagadómstóli þar sem hann var talinn svo lítill og áhrifalaus að hann gæti ekki skapað raunverulega ógn við lýðræðisskipun landsins.

Borgarfulltrúar Kristilegra demókrata (CDU), flokks Angelu Merkel kanslara Þýskalands, Sósíaldemókrata (SPD) og Frjálslyndra demókrata (FDP) greiddu atkvæði með kjöri Jagsch.

Formaður Kristilegra demókrata, Annegret Kramp-Karrenbauer, hefur fordæmt kjörið og kallað eftir því að skipan Jagsch verði afturkölluð. Framkvæmdastjóri flokksins, Paul Ziemiak, sagði „kjör á meðlimi stjórnmálaflokks sem stefnir að andlýðræðislegum markmiðum er hneisa“.

Framkvæmdastjóri Sósíaldemókrata, Lars Klingbeil, fordæmdi kjörið á Jagsch á Twitter. Sjálfur hefur Jagsch lofað að vinna þverpólitískt í þágu hagsmuna bæjarins með jákvæðum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert